Hér má sjá fyrirhugað framkvæmdasvæði og veglínuna á Kjalarnesi samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar um mat á umhverfisáhrifum.

Vegagerð um Kjalarnes ekki talin hafa umtalsverð umhverfisáhrif

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar níu kílómetra Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Skipulagsstofnun úrskurðaði í fyrrasumar að framkvæmdin skyldi fara í umhverfismat. Sveitarfélög á Vesturlandi, með Akraneskaupstað í broddi fylkingar, kærðu þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísaði kærunni frá nú í febrúar. Á vef Skipulagsstofnunar má nú kynna sér niðurstöðu skýrslunnar. Í niðurstöðum segir orðrétt: „Það er niðurstaða Vegagerðarinnar að á heildina litið verði ekki umtalsverð umhverfisáhrif af framkvæmdinni.“

Eins og lesendur þekkja áformar Vegagerðin í samráði við Reykjavíkurborg breikkun Vesturlandsvegar á 9 km kafla milli Varmhóla og Hvalfjarðarvegar. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur og auka umferðaröryggi vegfarenda. Á stærstum hluta verður veginum breytt í 2+1 veg. Jafnframt verða gerð þrjú hringtorg, vegtengingum fækkað og lagðir hliðarvegir, göngu-, hjóla- og reiðstígar. Framkvæmdin fellur undir tl. 10.07 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er því háð mati á umhverfisáhrifum. Í frummatsskýrslunni er gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og metin áhrif hennar á eftirfarandi þætti: Landnotkun, gróður og vistlendi, fuglalíf, landslag og ásýnd, menningarminjar, hljóðvist og umferðaröryggi.

Frummatsskýrsluna ásamt viðaukum má kynna sér í heild sinni í íþróttahúsi Klébergsskóla á Kjalarnesi, á skrifstofu Reykjavíkurborgar, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Hægt er að gera athugasemdir og skulu þær vera skriflegar og berast eigi síðar en 7. apríl 2020 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is. Sérstakur kynningarfundur vegna skýrslunnar er fyrirhugaður fimmtudaginn 27. febrúar kl. 16:00 til 18:00 í Klébergsskóla á Kjalarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir