Kristján Þór Júlíusson ráðherra tekur við skýrslunni frá Þóroddi Bjarnasyni formanni starfshópsins.

Leggja til að skerpt verði á áherslum við úthlutun byggðakvóta

Starfshópur sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra skipaði síðasta vor til að endurskoða meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, hefur lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra. Hópnum var gert að endurskoða meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem lög um stjórn fiskveiða kveða á um að skulu teknar frá til sérstakra verkefna og hér eru nefndir atvinnu- og byggðakvótar. Starfshópurinn bendir á að umtalsverðir hagsmunir felist í hvernig dreifðar sjávarbyggðir eru skilgreindar og að þrýstingur stærri byggðakjarna kunni að hafa leitt til þess að byggðakvótinn hafi farið víðar en til þeirra byggða sem eru veikastar fyrir.

Samandregið eru helstu tillögur starfshópsins eftirfarandi:

  • Tilgangur og markmið atvinnu- og byggðakvóta verði betur skýrð í lögum og árangur þeirra metinn.
  • Áhersla verði lögð á stuðning við smærri sjávarbyggðir í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
  • Að ótvírætt sé að 5,3% aflaheimilda eru dregin frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta áður en aflaheimildum er úthlutað á einstök skip.
  • Innbyrðis skipting þeirra 5,3% aflaheimilda sem dregin eru frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta verði fest til sex ára.
  • Almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára í samræmi við meðaltal fyrri ára og svigrúm aukið til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.
  • Ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.
  • Gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

Mikilvægt að styrkja minnstu sjávarbyggðir

Jafnframt gerir starfshópurinn ýmsar tillögur um minni breytingar á fyrirkomulagi almenns byggðakvóta, sértæks byggðakvóta, línuívilnunar, strandveiða og frístundaveiða í tengslum við ferðaþjónustu. Starfshópurinn leggur sérstaka áherslu á þá ábyrgð sem fólgin er í ráðstöfun ríkisins á þeim umtalsverðu verðmætum sem felast í 5,3% heildaraflamarks. Því telur hópurinn mikilvægt að slíkur stuðningur hafi skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangur metinn með reglubundnum hætti. Í lokaorðum skýrslunnar segir að áætlað aflaverðmæti sé 5,5 til 7,6 milljarðar króna á ári hverju. Það séu mikil verðmæti og afar mikilvægt að markmiðin með úthlutun þeirra séu skýr. Skýrsluhöfundar segja mikilvægt að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt erfiðast með að aðlagast stórfelldum breytingum í íslenskum sjávarútvegi. Jafnframt eigi að stuðla að fjölbreytni og nýliðun í greininni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir