Hér er Ingimundur í hópi vaskra félaga í pútti í Brákarey. Myndin var tekin á æfingu síðastliðinn fimmtudag þar sem um þrjátíðu spilarar mætti til að pútta undir stjórn Ingimundar. Ljósm. mm.

Ingimundur er Borgnesingur ársins 2019

Á þorrablóti Skallagríms, sem haldið var 15. febrúar síðastliðinn í Hjálmakletti, var venju samkvæmt tilkynnt um val á Borgnesingi ársins. Það kom í hlut Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur verðandi sveitarstjóra í Borgarbyggð að tilkynna um valið. Borgnesingur ársins er Ingimundur Ingimundarson íþróttakennari og frumkvöðull á sviði íþrótta fyrir almenning.

„Borgnesingur ársins 2019 er kraftmikill einstaklingur sem hefur til fjölda ára stuðlað að og stutt íþróttalíf í Borgarbyggð,“ sagði Þórdís Sif í ávarpi sínu. „Hann hefur einnig verið þátttakandi í því á landsvísu að stuðla að öflugu íþróttastarfi og komið að stórum sem smáum viðburðum hjá íþróttahreyfingunni. Hann hefur tekið þátt í því sem þjálfari að byggja upp gott starf í kringum frjálsar íþróttir, sund, boccia og pútt. Ef stórmót hafa verið haldin í héraðinu er Borgnesingur ársins mættur, hann var formaður framkvæmdanefndar fyrir Landsmót UMFÍ í Borgarnesi árið 1997, þegar mikil uppbygging átti sér stað í kringum íþróttamannvirki í Borgarnesi. Til hans er ávalt leitað þegar mikið liggur við í mótahaldi og íþróttalífi í héraðinu og hægt að sækja í hafsjó af þekkingu og reynslu. Seinustu árin hefur Borgnesingur ársins stuðlað að því að byggja upp fjölmennan hóp hressra púttara. Verkefnið hefur Borgnesingur ársins tekið alvarlega, hann fylgist með og skráir árangur allra þeirra sem taka þátt og hvetur þá áfram til árangurs. Nú er hann nánast búinn að sprengja utan af hópnum húsnæðið í Brákarey því þvílík er þátttakan. Það má ætla að hann hafi nú þegar sett hópnum metnaðarfull markmið fyrir Landsmót 50+ sem haldið verður í Borgarnesi í sumar og þar verður hann án efa að miðla af þekkingu sinni og reynslu, ásamt því að hvetja og styðja sitt fólk sem kemur til með að taka þátt í mótinu,“ sagði Þórdís Sif, sem afhenti að endingu Ingimundi blóm og verðlaunagrip fyrir nafnbótina Borgnesingur ársins 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir