Geta ekki gert kröfu um starfsstöð í sveitarfélaginu

Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði í máli Vátryggingafélags Íslands gegn Borgarbyggð 18. febrúar síðastliðinn. Nefndin úrskurðaði að Borgarbyggð skyldi fella út úr útboðsskilmálum ákvæði um að bjóðandi starfræki starfsstöð í sveitarfélaginu.

Borgarbyggð hafði í skilmálum útboðsins gert kröfu um að bjóðandi starfræki starfsstöð í sveitarfélaginu með starfsmanni a.m.k. 16 tíma á viku. Skyldi henni komið á sex mánuðum eftir undirritun samnings við bjóðanda og hún starfrækt út samningstímann, hið minnsta.

VÍS vildi meina að með ákvæðinu væri fyrirfram verið að útiloka ákveðin fyrirtæki á grundvelli búsetusjónarmiða. Slíkt væri óheimilt og var kærunefndin því sammála. „Að mati kærunefndar útboðsmála er framangreind krafa til þess fallin að mismuna fyrirtækjum sem veita vátryggingaþjónustu á grundvelli þess hvar starfsstöð þeirra er staðsett,“ segir í úrskurði nefndarinnar. Nefndin taldi kröfu Borgarbyggðar, sem einkum lúti að aðgengi að persónulegri þjónustu og þekkingu á staðháttum innan sveitarfélagsins, ekki geta réttlætt kröfuna að teknu tilliti til eðlis innkaupanna, sem snúast um kaup sveitarfélagsins á vátryggingarþjónustu. Kærunefnd hafnaði aftur á móti kröfu VÍS um að láta í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna málsins. Borgarbyggð var gert hins vegar gert að greiða VÍS 350 þús. krónur í málskostnað.

Á fundi byggðaráðs Borgarbyggðar 20. febrúar var fjallað um úrskurðinn. Ráðið samþykkti að fjarlægja ákvæðið úr skilmálum útboðsins og framlengja tilboðsfrestinn til 3. mars næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir