Úr vinnslu Ísfisks á Akranesi skömmu eftir að starfsemi fyrirtækisins hófst þar í bæ. Ljósm. úr safni/ kgk.

Fengu lán frá verkalýðsfélaginu

Föstudaginn 14. febrúar síðastliðinn gekk Verkalýðsfélag Akraness frá lánagreiðslum til 35 fyrrum starfsmanna Ísfisks. Nema lánin samtals tæpum tíu milljónum króna.

Fólkið hafði ekki fengið greidd laun, né uppsagnarfrest sinn, frá því í september á síðasta ári. Þegar Ísfiskur var tekinn til gjaldþrotaskipta nú fyrir skemmstu varð endanlega ljóst að vangoldin laun fengjust ekki greidd frá fyrirtækinu. „Margir starfsmenn hafa eðlilega lent í miklum hremmingum vegna þessa eins og alltaf gerist þegar fyrirtæki verða gjaldþrota,“ segir á heimasíðu VLFA. Í ljósi þessa ákvað stjórn verkalýðsfélagsins að lána öllum starfsmönnum Ísfisks sem vildu 250 þúsund króna lán með veði í kröfu á Ábyrgðasjóð launa. Stór hluti fyrrum starfsmanna fyrirtækisins þáði boðið. „Er stjórn félagsins mjög ánægð með að geta aðstoðað þessa félagsmenn sína, sem hafa sumir hverjir þurft að taka yfirdráttarlán til að geta framfleytt sér og sínum,“ segir á vef VLFA.

Þar kemur einnig fram að unnið hafi verið að því að útbúa launakröfur félagsmanna sinna á hendur þrotabúi fyrirtækisins. Nema þær kröfur samtals um 42 milljónum króna, að því er fram kemur á vef VLFA. Fáist kröfurnar ekki ekki greiddar úr þrotabúinu mun Ábyrgðasjóður launa ábyrgjast vangreidd laun starfsfólksins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir