Öryggismyndavélar hafa þegar verið settar upp annars staðar á landinu, svo sem á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Ljósm. Lögreglan á Suðurlandi.

Öryggismyndavélar við alla stærri bæi

Stefnt er að því að setja upp öryggismyndavélar við alla stærri þéttbýliskjarna í landshlutanum. Það er Lögreglan á Vesturlandi, sveitarfélögin í landshlutanum og Neyðarlínan sem vinna að verkefninu í sameiningu. Að sögn Jóns S. Ólasonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, hefur uppsetning slíkra myndavéla verið samþykkt á Akranesi, í Borgarbyggð og Stykkishólmi. Þá sé til athugunar að koma slíkum myndavélum fyrir víðar í landshlutanum, svo sem í Grundarfirði, Snæfellsbæ og jafnvel á enn öðrum stöðum.

„Um er að ræða myndavélar sem munu fylgjast með allri umferð sem fer framhjá þeim. Þær geta lesið á skráningarnúmer bifreiða og upptakan gengur bara inn í gagnabanka,“ segir Jón í samtali við Skessuhorn. Hann telur að myndavélarnar komi til með að styðja vel við allt almennt eftirlit lögreglu og auðvelda vinnu hennar. Myndavélar sem þessar hafi þegar verið settar upp á höfuðborgarsvæðinu og við bæi á Suðurlandi. „Þær hafa reynst mjög vel,“ segir Jón og tekur dæmi: „Ef bíl er stolið í Reykjavík og til hans hefur sést ekið í átt að Selfossi, þá getur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft samband við kollegana sína á Selfossi. Þeir kíkja í myndavélarnar hjá sér og sjá strax hvort bíllinn hefur farið þar í gegn eða ekki,“ segir hann. En verða myndavélarnar þá settar upp við allar inn- og útgönguleiðir stærri þéttbýliskjarna landshlutans? „Það hefur ekki verið endanlega ákveðið en hugmyndin er að þær verði við allar leiðir inn og út úr bæjum,“ segir Jón.

„Aðeins ef þörf krefur“

Spurður um kostnaðinn sem af þessu mun hljótast segir Jón að áætlanir Neyðarlínu geri ráð fyrir að hver staur með myndavél komi til með að kosta um 1,5 milljón króna. Kostnaður við tengingar geti þó verið mismunandi eftir stöðum og bætist við stofnkostnaðinn. Þá sé misjafnt eftir bæjum hve margar vélar þurfi að setja upp á hverjum stað. „Sveitarfélögin kaupa vélarnar og bera kostnað af uppsetningu þeirra. Lögregla kaupir miðlægan búnað sem veitir aðgang að upplýsingunum sem myndavélarnar safna og Neyðarlínan annast framkvæmd við verkefnið,“ útskýrir hann.

En hvenær mega íbúar þessarra bæja búast við því að myndavélarnar verði settar upp? „Málið er lengst komið á Akranesi og styst í að vélarnar verði settar upp þar. En ég get ekki nefnt neina dagsetningu enn, það kemur bara í ljós hversu langan tíma þetta tekur,“ segir Jón og bætir því við að lokum að lögregla muni ekki fylgjast með vélunum frá degi til dags. „En ef eitthvað kemur upp á verður hægt að sækja upplýsingarnar,“ segir hann. „Aðeins lögregla mun hafa aðgang að þessum upplýsingum og einungis ef þörf krefur,“ segir Jón S. Ólason að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir