Skuldir Ísfisks metnar 160 milljónum króna umfram eignir

Greint var frá því í síðustu viku að stjórn Ísfisks hf. hafði þá óskað eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur Vesturlands hefur samþykkt gjaldþrotaskipti og Ingi Tryggvason hdl. hefur verið skipaður skiptastjóri. Fram kemur í beiðni um skipti að eignir búsins eru taldar 627 milljónir króna en skuldir 788 milljónir og taldi skuldari útilokað að félagið gæti staðið í skilum með greiðslur. „Ljóst er eftir 39 ára samfellda starfsemi Ísfisks hf. að komið er að leiðarlokum. Ísfiskur hefur verið framleiðslufyrirtæki á fiski allan þennan tíma án þess að vera með útgerð eða kvóta,“ sagði í tilkynningu sem Albert Svavarsson framkvæmdastjóri sendi Skessuhorni fyrir hönd fyrirtækisins. Hjá fyrirtækinu störfuðu á Akranesi um fimmtíu manns þegar mest var og því ljóst að brottfall þess af sjónarsviðinu er mikið áfall fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu.

Ísfiskur var lengst af til húsa í Kársnesinu í Kópavogi en þurfti að rýma húsnæði sitt þar og selja vegna uppbyggingar íbúðabyggðar á þessum eftirsótta stað. Tekin var ákvörðun um flutning starfseminnar á Akranes 2017 eftir að skrifað hafði verið undir kaupsamning um hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu 8-10 á Akranesi. Ráðist var í flutninga, en þrátt fyrir mikla vinnu tókst ekki að ljúka fjármögnun húsnæðiskaupanna og fór svo að lokum að Ísfiskur hf. var lýstur gjaldþrota. „Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið. Reynt var í nokkra mánuði að loka fjármögnun á félaginu en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina á Akranesi. Leitað var til nokkurra aðila með það, en án árangurs,“ segir Albert í samtali við Skessuhorn. „Ísfiskur vill þakka starfsfólki sínu þolinmæði og samstöðu í okkar garð. Einnig bæjarstjórn á Akranesi, bæjarstóra og samfélaginu öllu sem tók okkur vel. Við hörmum að hafa brugðist ykkur,“ segir hann.

Fyrirtæki sem keypti á frjálsum markaði

Albert Svavarsson er að vonum vonsvikinn með að 39 ára samfelldri starfsemi Ísfisks hf. sé nú lokið. Rekur hann í samtali við Skessuhorn ástæður þess. „Ísfiskur hefur alla tíð verið framleiðslufyrirtæki á fiski án þess að vera með útgerð eða kvóta. Við höfum einkum sérhæft okkur í vinnslu á ýsu og selt inn á góðan markað, einkum í Ameríku. Starfsemina höfum við byggst á kaupum á fiski af fiskmörkuðum og eru markaðirnir nánast jafngamlir Ísfiski, hófu starfsemi fyrir nærri 35 árum. Ljóst er með gjaldþroti okkar að þar raðast upp enn eitt fyrirtækið sem hefur byggt sín kaup á fiski á frjálsum markaði. Við bætumst nú í stækkandi hóp fyrirtækja sem illa hefur farið fyrir og endað í þroti. Þar má nefna önnur millistór og stór fyrirtæki svo sem Toppfisk og Frostfisk,“ segir Albert.

Brot á samkeppnislögum?

Hann segir að í ljósi þess að fyrirtæki sem keypt hafi hráefni á mörkuðum fari nú í þrot þurfi að leita skýringa. Hvað brást – brugðust stjórnvöld? Þessa spurningu setur hann fram án þess þó að firra Ísfisk ábyrgð. Engu að síður séu þetta spurningar sem almenningur hafi rétt á að fá svör við. „Þessi fyrirtæki seldu öll afurðir inn á sterka og góða markaði. Sum hver á ferskfiskmarkaði sem þau byggðu upp sjálf með erlendum kaupendum. Þeir markaðir eru enn að kaupa fisk, en nú njóta aðrir framleiðendur þessarar uppbyggingar sem við höfum staðið fyrir. Ég fullyrði hins vegar að öll þessi fyrirtæki voru rekin af ráðdeild. Ljóst er að í tilfellum allra þessara fyrirtækja; Ísfisks sömuleiðis, er meginástæðan að okkar mati aðgerðaleysi stjórnvalda. Þau hafa ekki sinnt sínu hlutverki að skapa þessum fyrirtækjum eðlilegt og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Stjórnvöld hafa valið að taka sér grófa stöðu á móti fyrirtækjum sem einungis eru í vinnslu og er það í mínum huga ófyrirgefanlegt og andstætt hagsmunum fyrirtækjanna og almennings. Mun þessi ákvörðun líklega einnig koma niður á starfsemi fiskmarkaða þegar fram líða stundir,“ segir Albert sem heldur því fram að þetta megi rekja til tómlætis íslenskra stjórnvalda. „Þetta skýrist af þeirri umgjörð sem ríkir um samkeppnismál og heimilaða tvöfalda verðmyndun á hráefni. Þrætuepli sem nú enn og aftur stendur styr um, samanber makrílumræðu og fleira. Þessi umræða verður ekki kveðin niður nema á þessu verði tekið með löggjöf. Það að stjórnvöld leyfi undirverðlagningu hráefnis, að þau verð fylgi ekki markaðslögmálum í eigin innri viðskiptum, er að okkar mati brot á samkeppnislögum. Allavega í löndum með þroskaða löggjöf um viðskipti sem víðast á við í hinum vestræna heimi.“

Líklega væri réttast að undirbúa málsókn

Albert segir að lönd þar sem svo vanþroskuð löggjöf sé við lýði kallist bananalýðveldi. „Til dæmis var tekið á þessum misbresti í Bandaríkjunum fyrir hundrað árum með svokölluðum Antitrust-lögum. Á undanförnum árum hefur verið lagt í margar ferðir til Samkeppniseftirlitsins til að knýja fram breytingar um málefnið, en án árangurs. Síðast birti eftirlitið álit árið 2012, fyrir ríflega sjö árum, þar sem stjórnvöld fengu ákúrur. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins þá var að þetta þyrfti að laga og lagði það meira að segja fram fjórar tillögur og ábendingar til sjávarútvegsráðherra sem hefðu dregið úr þessari mismunun. Ráðherrar málaflokksins hafa ekkert gert í því allan þennan tíma. Þetta álit má lesa á vef Samkeppniseftirlitsins. Á sama tíma hefur sú afleiðing komið fram, sem ég hef hér rakið. Fyrirtækin fara í gjaldþrot. Líklega væri réttast að eigendur þessara fyrirtækja og annarra sem verða fyrir barðinu á þessum ólögum að skoða skaðabótamálsókn á hendur hinu opinbera með hliðsjón að tómlætinu sem ríkið hefur sýnt.“

Bankar eiga sinn þátt einnig

Alberti segir þannig ljóst að rekstur fyrirtækja sem einungis stundi fiskvinnslu, en ekki útgerð, hafi að hluta staðið svona illa vegna þessarar stöðu í samkeppnismálum. „Hins vegar má rekja afdrif Ísfisks og fleiri fyrirtækja nú að einhverju leyti til afstöðu banka og fjármálastofnana til lánveitinga. Að einhverju leyti er afstaða banka skiljanleg í ljósi áður umgetinnar stöðu okkar þótt alhæfingar bankafólks séu kannski of miklar, enda þekking innan bankakerfisins ekki nægjanlega mikil á einstaka málum. Síðan ber að nefna að fyrirgreiðsla bankastofnana almennt á Íslandi er óáreiðanleg og enginn veit morgundaginn þegar kemur að slíkum ákvörðunum. Fólk getur skoðað sögu ísenskra banka þessa öld og velt fyrir sér hvílíkan rússíbana þeir hafa sent fyrirtæki í gegnum á þessum tveimur áratugum. Með óhóflegum og ómarkvissum lánveitingum og með forgöngu við ranga skráningu krónunnar, hvort tveggja fyrir hrun, og með því að skrúfa fyrirvaralítið fyrir lántökur til fjölda traustra fyrirtækja eins og virðist raunin þessa mánuðina. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra“

Viljum við ekki læra af öðrum þjóðum?

Albert segir að það að reka banka sé vandasamt, viðkvæmt og valdamikið hlutverk, sem menn hafi ekki náð að standa nægjanlega vel undir undanfarna tvo áratugi. „Uppbygging fyrirtækja með framtíðarsýn þarfnast banka að bakhjarli sem lánar byggt á þeim grunni að hann hafi ávallt getu til þess. Vont er að vera með banka sem bakhjarl sem að geta ekki lánað vegna eigin vandamála. Við slíkt er ekki hægt að una. Ljóst er að skaðinn sem bankar hafa skapað mörgum fyrirtækjum á síðustu 20 árum er mikill sé hann tekinn saman. Bönkum hefur mistekist við að hjálpa þessari þjóð að ná jafnvægi í efnahag og rekstri fyrirtækja. Umsögn Ragnars Önundarsonar í grein frá í síðustu viku um að bankar séu „innviðir“ eru orð að sönnu og þarft að líta til við ákvarðanir um umgjörð þeirra meðal annars eignarhald þeirra. Óhjákvæmilega hafa bankar ríka grunnskyldu. Ragnar nefnir einnig að Norðmenn séu búnir að komast að þessari niðurstöðu eftir slæma skelli. En kannski er málið að hvorki viljum við Íslendingar né getum lært af öðrum þjóðum? Við erum nú einu sinni bestir í heimi í svo mörgu, meðal annars sjávarútvegi,“ segir Albert.

 

Þrátt fyrir aukið hlutafé

Ísfiskur hf. hefur nú reynt í allmarga mánuði að endurfjármagna rekstur og eignir félagsins. „Okkur gekk þetta vel að hluta eins og gagnvart birgjum og Byggðastofnun. Þaðan kom góður meðbyr og skilningur og erum við þessum aðilum þakklátir fyrir það. Út af stóð þó að fjármagna kaup fasteignarinnar sem við keyptum við Bárugötu á Akranesi. Eftir umleitanir við núverandi lángjafa á húsinu, umræðu um það við fjóra banka sem og fleiri varð ljóst að það myndi ekki ganga. Það er ekki hægt að reka fyrirtækið án eðlilegrar lánafyrirgreiðslu vegna fasteigna og fastafjármuna. Því var ekki lengra hægt að halda þrátt fyrir að eigendur hafi ávallt og hingað til stutt félagið gríðarlega vel. Meira að segja betur en hægt var að ætlast til miðað það samkeppnisumhverfi sem við búum við. Við uppbyggingu og flutning Ísfisks á Akranes var hlutafé í félaginu aukið mikið. Voru eigendur tilbúnir að leggja enn meira fram við verkefnið ef gengi að ná fram eðlilegri heildarfjármögnun. En eins og áður sagði féll félagið þar sem þetta atriði náðist ekki í höfn. Því er tap eigenda og kröfuhafa verulegt. Það er því með sorg í hjarta og trega sem við gefumst upp,“ segir Albert.

 

Gangi ykkur vel!

Albert Svavarsson segir að eigendur Ísfisks hafi ákveðið að koma með fyrirtækið á Akranes þegar samfélagið þar var í sárum eftir að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafði ákveðið að yfirgefa bæjarfélagið vegna hagræðingarástæðna. „Því voru miklar væntingar á Akranesi um okkar gengi, sérstaklega hjá fólkinu sem fékk þar vinnu eftir að hafa nýverið tapað henni hjá HB Granda. Fólk sem vildi, kunni og gat hugsað sér að vinna í fiski. Fólk sem nú bíður heima eftir atvinnu á meðan fiskurinn sem það hefði verið að vinna fer óunninn til Bretlands og er unninn þar. Viljum við taka fram að þetta fólk, starfsfólkið, á okkar þakkir skildar fyrir samstöðuna og þolinmæðina við að bíða eftir því hvort við fyndum lausn. Sama á við um þjónustuaðila á Akranesi sem urðu fyrir sama áfalli við brotthvarfið. Þeir tóku okkur sömuleiðis vel. Að lokum viljum við færa bæjarstjórn, verkalýðsfélaginu og bæjarstjóra sérstakar þakkir fyrir trúna á okkur og stuðninginn við að reyna að koma upp góðu vinnslufyrirtæki í bænum þótt það hafi mistekist. Það er ekki þeim að kenna og ekki okkur heldur. Stundum er sagt „veldur hver á heldur“. Það finnst okkur spurning í þessu tilfelli. Við lýsum miklum leiða og vonbrigðum með þessi málalok. Gangi ykkur vel, Skagamenn, um framtíð alla,“ segir Albert Svavarsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir