Víða hafa plötur fokið af stað í óveðrinu. Ljósm. ki.

Eignatjón og einn slasaður í óveðrinu

Björgunarsveitir um landshlutann allan hafa staðið í ströngu frá því snemma í morgun, sem og aðrir viðbragðsaðilar. Að sögn lögreglu er mest um minniháttar eignatjón af völdum óveðrusins. Eitt slys er bókað í landshlutanum að sögn lögreglu. Maður féll fyrir utan bíl sinn á Kalmansvöllum á Akranesi kl. 6:50 og er líklega handleggsbrotinn. Lögregla var kölluð á vettvang ásamt sjúkrabíl, sem flutti manninn á sjúkrahús til aðhlynningar. Lögregla telur líklegt að maðurinn hafi fallið í rokinu með fyrrgreindum afleiðingum.

Hjólhýsi fauk og splundraðist við Þórisstaði í Svínadal rétt fyrir kl. 9:00 í morgun. Staðarhaldari þar var kominn ásamt fólki inn í golfskála eftir skjóli. Þakplötur fuku við gamla bæinn við Nýhöfn undir Hafnarfjalli. Þak fauk af verkfæraskúr við sumarhús í Svínadal um tíuleytið.

Á Akranesi hefur verið tilkynnt um ýmiss konar minniháttar eignatjón. Hurðir hafa fokið upp, þak hefur fokið af skúr, hluti af palli, tunnur og ýmislegt fleira smálegt fokið í rokinu. Þakplötur hafa verið að losna og þakkantar. Dæmi eru um að rúður hafi brotnað í bílum. Sjö rúður brotnuðu á bílum við bílasöluna Bílás á Akranesi og metur bílasali tjónið á um eina milljón króna. Telur hann að vindurinn hafi rifið með sér klaka og grjót úr nágrenninu sem varð þess valdandi að rúðurnar brotnuðu.

Einn bíll fauk af stað á Akranesi snemma í morgun. Kom í ljós að gleymst hafði að setja hann í gír eða handbremsu. Var honum ýtt aftur í stæði og settur í gír og handbremsan fest. Þá losnaði klæðning af bensíndælu við eldsneytisstöð N1 á Akranesi. Lögregla fór um kl. 5:00 í morgun og festi stillansa sem voru farnir að hreyfast ásamt húsráðanda og smiðum, skömmu áður en óveðrið skall á.

Kaplar tóku að losna af gömlu mastri á lögreglustöðinni á Akranesi í rokinu. Að sögn lögreglu er mastrið ekki í notkun og þyrfti helst að taka það niður. Pottlok fauk af heitum potti á Akranesi. Eigandi gerði viðvart en veit ekki hvar lokið er niður komið. Þá fauk trampólín við Grundartún þar í bæ um tíuleytið í morgun.

Útsendari Skessuhorns sá enn fremur rútu á hliðinni við Höfðasel á Akranesi og brotnar rúður í félagsheimilinu í Æðarodda.

Í Borgarnesi voru björgunarsveitarmenn að festa niður grindverk, binda tunnur og brotna fánastöng. Gámur fauk af stað í Árdal í Borgarfirði og hafnaði úti í á. Hurð fauk af fjósi á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum og þakgluggar fuku einnig.

Þá var tilkynnt um þakplötur að fjúka á Fosshótel Stykkishólmi í morgun.

 

Undir áhrifum í brjáluðu veðri

Lögregla var kölluð að umferðaróhappi undir Akrafjalli í hádeginu í dag. Ökumaður hafði þar misst bíl sinn út af veginum. Eftir að lögregla kom á vettvang vaknaði grunur um að ástand ökumanns væri ekki í lagi. Er hann grunaður um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var handtekinn og færður á lögreglustöð. Lögregla vinnur nú í málinu.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir