Í vinnslu Ísfisks á Akranesi skömmu eftir að starfsemi þar hófst. Ljósm. úr safni/ kgk.

Ísfiskur náði ekki að fjármagna kaup á fiskvinnsluhúsi og fór í þrot

„Svekktur yfir afstöðu stjórnvalda og aðstæðum banka,“ segir framkvæmdastjórinn

 

Greint var frá því í síðustu viku að stjórn Ísfisks hf. hafði þá óskað eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. „Ljóst er eftir 39 ára samfellda starfsemi Ísfisks hf. að komið er að leiðarlokum. Ísfiskur hefur verið framleiðslufyrirtæki á fiski allan þennan tíma án þess að vera með útgerð eða kvóta,“ sagði í tilkynningu sem Albert Svavarsson framkvæmdastjóri sendi Skessuhorni fyrir hönd fyrirtækisins. Hjá fyrirtækinu störfuðu á Akranesi um fimmtíu manns þegar mest var og því ljóst að brottfall þess af sjónarsviðinu er mikið áfall fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu.

Ísfiskur var lengst af til húsa í Kársnesinu í Kópavogi en þurfti að rýma húsnæði sitt þar og selja vegna uppbyggingar íbúðabyggðar á þessum eftirsótta stað. Tekin var ákvörðun um flutning starfseminnar á Akranes 2017 eftir að skrifað hafði verið undir kaupsamning um hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu 8-10 á Akranesi. Ráðist var í flutninga, en þrátt fyrir mikla vinnu tókst ekki að ljúka fjármögnun húsnæðiskaupanna og fór svo að lokum að Ísfiskur hf. var lýstur gjaldþrota. „Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið. Reynt var í nokkra mánuði að loka fjármögnun á félaginu en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina á Akranesi. Leitað var til nokkurra aðila með það, en án árangurs,“ segir Albert í samtali við Skessuhorn. „Ísfiskur vill þakka starfsfólki sínu þolinmæði og samstöðu í okkar garð. Einnig bæjarstjórn á Akranesi, bæjarstóra og samfélaginu öllu sem tók okkur vel. Við hörmum að hafa brugðist ykkur,“ segir hann.

 

Nánar er rætt við Albert í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir