Kross þar sem hugsanlega rís Þjóðgarðsmiðstöð

Glöggir vegfarendur um Hellissand hafa tekið eftir því að búið er að setja að nýju upp kross á malarhaug sem stendur á svæðinu þar sem fyrirhugað er að reisa nýja Þjóðgarðsmiðstöð. Er þetta í annað skipti sem krossinn er settur upp en í fyrra skiptið var hann settur upp þar sem framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina gengu ekkert.

Saga meintra byggingaframkvæmda er orðin býsna löng. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 2001 en fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Bankahrunið setti þó strik í reikninginn og það var því ekki fyrr en í ágúst 2016 sem tekin var fyrsta skóflustungan að þjóðgarðsmiðstöðinni. Það gerði Sigrún Magnúsdóttir þáverandi umhverfisráðherra enda stóðu þá vonir til að miðstöðin yrði tilbúin til notkunar í byrjun árs 2020. Var þá krossinn tekinn niður. Þau áform gengu þó ekki eftir og enn er ekki komin nein þjóðgarðsmiðstöð, þó jarðvegsframkvæmdir hafi byrjað 2018 í kjölfar þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tók með táknrænum hætti í byrjun apríl á síðasta ári aðra skóflustungu að hinni meintu miðstöð. Var bygging Þjóðgarðsmiðstöðvar svo boðin út um mitt árið og tilboð opnuð í byrjun júní. Reyndust þau öll langt yfir kostnaðaráætlun, ekkert hefur gerst í framhaldinu og krossinn því mættur á sinn stað, yfirvöldum til áminningar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir