Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tók daginn snemma á laugardaginn. Snemma morguns var hún í Reykholti og skrifaði undir rannsóknarsamning í Snorrastofu og klukkan 10:30 var hún mætt að Garðavöllum á Akranesi þar sem boðað hafði verið til fundar.

Þingmenn á faraldsfæti í kjördæmaviku

Hefðbundin þingstörf liggja niðri þessa vikuna enda kjördæmavika. Þingmenn flestra flokka eru því á faraldsfæti, heimsækja fyrirtæki, halda fundi, ræða við kjósendur og taka púlsinn á þjóðlífinu. Skessuhorn heyrði í morgun hljóðið í nokkrum þeirra.

Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis var staddur á fundi í Háskólanum á Akureyri þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið. „Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ákváðu að þessu sinni að fara saman í hringferð um landið. Við landsbyggðarþingmenn teljum nauðsynlegt að allur hópurinn skilji og skynji vel þær aðstæður sem við erum að berjast fyrir rétt eins og við þurfum að vera vel inni í málefnum þéttbýlisins. Það hefur verið góð reynsla af þessu fyrirtkomulagi hjá okkur,“ segir Haraldur og segir að þessu sinni sé lögð áhersla á heimsóknir í lítil og meðalstór fyrirtæki. Hann segir að ferð hópsins hafi byrjað með fjölmennum fundi í Búðardal síðastliðinn föstudag en þaðan hafi leiðin legið um Strandir og Vestfirði, þá var farið á Sauðárkrók og víðar um norðanvert landið. Hann segir að þetta fyrirkomulag leiði þó til þess að ekki næst að heimsækja öll héruð á einni viku jafnvel þótt skipulagið sé gott, en hann segir að hópurinn sé stöðugt á ferðinni frá sjö á morgnana og fram á nótt. „Við stefnum á að heimsækja Akranes, Borgarfjörð og Snæfellsnes á næstunni, en það verður ekki í þessari viku,“ bætir Haraldur við.

Framsóknarfólk hefur sömuleiðis verið á faraldsfæti, en fyrsti fundur á þeirra vegum var heimsókn Lilju D Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á Akranes síðastliðinn laugardag. Að sögn Helga Hauks Haukssonar framkvæmdastjóra flokksins er þétt dagskrá framundan og fundir þingmannanna Ásmundar Einars Daðasonar og Höllu Signýjar Kristjánsdóttur víða um kjördæmið. Stærsti fundur á vegum flokksins verður í Borgarnesi á þriðjudagskvöld þar sem samgöngumál verða til umræðu.

Guðjón Brjánsson þingmaður Samfylkingar er sömuleiðis á faraldsfæti. „Við erum á ferðinni hér í Húnavatnssýslum í dag. Er nú á akstri á leiðinni til Skagastrandar í musku og slæmu skyggni. Heimsækjum svo Blönduós og fleiri staði. Við ætlum í þessari ferð okkar að leggja áherslu á heimsóknir til ferðaþjónustunnar, sprotafyrirtækja og almennt til þeirra sem eru á kafi í nýsköpun, til dæmis nýja gagnaverið á Blönduósi. Á morgun verður svo farið víða um Snæfellsnes,“ segir Guðjón. Hann bætir við að á föstudag sé m.a. fyrirhugað að vera í Borgarbyggð.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG í kjördæmin var veðurteppt heima hjá sér á Suðureyri þegar hringt var í hana í morgun. „Hér er í augnablikinu ófært bæði landleiðina og með flugi. Engu að síður er hópur þingmanna flokksins á ferðinni í kjördæminu, en við skipulögðum bæði ferð vesturfara og austurfara,“ segir Lilja Rafney. Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG var í Geirabakaríi í Borgarnesi þegar slegið var á þráðinn til hans nú laust fyrir hádegi. „Við vorum á Grundartanga í morgun og erum á leið vestur á Snæfellsnes. Endum svo í Dölum í kvöld þar sem gist verður. Svo er áframhaldandi dagskrá á næstu dögum hér í kjördæminu og stefnan svo sett á Norðurlandið þegar líður á vikuna,“ sagði Kolbeinn.

Haraldur Benediktsson 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis hefur ásamt fleirum verið á faraldsfæti undanfarna daga. Hér er hann staddur í verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki og ræðir við hinn aldna kaupmann Bjarna Har. Ljósm. Njáll Trausti.

Þingmenn VG ásamt Lísu Kristjáns, Hreindísi Ylfu og Leifi Gunnarssyni í Geirabakaríi í Borgarnesi nú í hádeginu. Ljósm. Bjarki Hjörleifsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir