Pétur Ingason opnar fiskverslun við Kirkjubraut 40 á Akranesi ásamt eiginkonu sinni Jónheiði Gunnbjörnsdóttur. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Opna fiskverslun á Akranesi 3. mars

Þriðjudaginn 3. mars næstkomandi verður fiskverslunin Skagafiskur ehf. opnuð við Kirkjubraut 40 á Akranesi. Það eru hjónin Pétur Ingason og Jónheiður Gunnbjörnsdóttir sem ætla að opna verslunina. Pétur og Jónheiður fluttu á Akranes fyrir rétt rúmu ári. Þau eru bæði frá Akureyri en höfðu búið í Hafnarfirði í rúmlega 21 ár áður en þau komu á Akranesi. Pétur vann hjá fyrirtækinu Samhentir í Garðabæ en langaði að geta unnið nær heimilinu. „Okkur datt í hug að gera þetta til að þurfa ekki lengur að keyra suður til vinnu og svo borðum við mikinn fisk og söknuðum þess að fá ferskan fisk og ákváðum bara að gera eitthvað í því sjálf,“ segir Pétur í samtali við Skessuhorn. Aðspurður segir hann þau hjónin vera mjög ánægð á Akranesi. „Okkur hefur verið mjög vel tekið hér og líður það vel að við erum tilbúin að stofna hér eigin rekstur,“ segir Pétur.

Í Skagafiski verður hægt að fá ferskan fisk alla virka daga auk þess sem hægt verður að kaupa ýmsa tilbúna fiskrétti og meðlæti tilbúið í ofninn. Boðið verður upp á breitt úrval fiskmetis og ferskur fiskur sóttur til Reykjavíkur alla virka morgna. „Hugmyndin er að fólk geti líka keypt fiskinn tilbúinn í ofninn  með meðlæti og öllu. Þá þarf fólk ekki annað en að skella þessu í ofninn og bíða í svona hálftíma,“ segir Pétur og bætir því við að ekki verði alltaf sömu fiskréttirnir alla daga. „Við ætlum að láta réttina rúlla fyrir fjölbreytni. Það verður því ekki sami fiskréttur á þriðjudegi og svo aftur á fimmtudegi.“ Aðspurður segir hann þau hjónin vera mjög bartsýn fyrir opnuninni. „Við höfum töluvert fengið að heyra að fólk sé spennt að fá loksins fiskverslun í bæinn svo við erum bara að leggja allt í þetta og erum vongóð að þetta muni ganga vel,“ segir Pétur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir