Úr vinnslusal Ísfisks á Akranesi. Ljósm. Skessuhorn/kgk.

Ísfiskur í þrot

Ekki fékkst fyrirgreiðsla til fjármögnunar á fasteign

Stjórn Ísfisks hf. hefur óskað eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. „Ljóst er eftir 39 ára samfellda starfsemi Ísfisks hf. að komið er að leiðarlokum. Ísfiskur hefur verið framleiðslufyrirtæki á fiski allan þennan tíma án þess að vera með útgerð eða kvóta. Félagið var lengst af til húsa í Kársnesinu í Kópavogi en flutti alla starfsemi sína á Akranes 2018. Hjá fyrirtækinu störfuðu á Akranesi um fimmtíu manns þegar mest var og því ljóst að brottfall þess er mikið áfall fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu. „Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið. Reynt var í nokkra mánuði að loka fjármögnun á félaginu en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina sem starfsemin flutti í fyrir nokkru. Leitað var til nokkurra aðila með það, en án árangurs,“ segir í tilkynningu frá stjórn.

„Ísfiskur vill þakka starfsfólki sínu þolinmæði og samstöðu í okkar garð. Einnig bæjarstjórn á Akranesi, bæjarstóra og samfélaginu öllu sem tók okkur vel. Við hörmum að hafa brugðist ykkur,“ segir í tilkynningu frá stjórn félagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir