Ljósm. FÍB

Bensínverð olíufélaganna er lægst í nágrenni Costco

Landsbyggðin hefur ekki notið góðs af innkomu Costco á markaðinn

Töluverð sveifla hefur verið á olíuverði á heimsmarkaði frá síðustu áramótum. Heimsmarkaðsverð á bensíni var nú í byrjun febrúar komið niður um ríflega 11% miðað við áramótaverðið. Að teknu tilliti til veikingar krónunnar gagnvart Bandaríkjadal þá er lækkunin um 10%. Listaverð bensíns hér á landi hefur á sama tíma aðeins lækkað um 1,2%. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) vekur máls á hækkun álagningar olíufélaganna og ekki síst því að bensínverð á landsbyggðinni er miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu þar sem samkeppni er hörðust í nágrenni við Costco. Bent er á að frá innkomu Costco á markaðinn hafa olíufélögin hækkað álagningu sína á viðskiptavini sem ekki geta notfært sér lægstu verðin á höfuðborgarsvæðinu. „Hafa verður í huga að miðað við núverandi heimsmarkaðsverð þá er innkaupsverð hvers lítra ríflega 24% af heildarverðinu miðað við algengasta lítraverðið hjá N1, 236,80 krónur. Föst krónutölugjöld ríkisins á hvern lítra eru samanlagt 76,60 krónur sama hvort lítraverðið er 236,80 krónur eða 198,90 krónur líkt og hjá Costco.“

Telja um aðför að landsbyggðinni að ræða

Þá segir í frétt FÍB að innkoma Costco inn á íslenska olíumarkaðinn hafi valdið straumhvörfum. „Olíufélögin hafa öll lækkað verð á nokkrum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Á átta stöðvum er í boði lægra verð á bensíni sem er frá 3,20 krónum til 5,1 krónum dýrara en lítraverðið hjá Costco. Að auki bjóða sex stöðvar lítraverð sem er frá 10,90 krónum til 20,90 krónum dýrara en hjá Costco. Landsbyggðin hefur ekki notið góðs af þessari samkeppni olíufélaganna við Costco.  Lægstu verðin utan höfuðborgarsvæðisins eru um 30 krónum hærri en það ódýrasta hjá Costco. Algengustu verðin eru 37,90 krónum hærri en hjá Costco. Frá innkomu Costco hafa olíufélögin hækkað álagningu sína á viðskiptavini sem ekki geta notfært sér lægstu verðin á höfuðborgarsvæðinu.  Meðalálagningin fór úr tæpum 43 krónum á lítra 2017 í ríflega 48 krónur árið 2019. Þessar tölur eru uppreiknaðar með vísitölu neysluverðs og án virðisaukaskatts.  Upp úr vasa neytenda er þetta um 6,20 krónum hærra verð á hvern lítra.“

Á fjórða tug króna verðmunur hjá sama félagi

Það munar 32,80 krónum eða 16,1% frá lægsta í hæsta bensínverðið hjá N1.  Ódýrasta lítraverðið er 204 krónur við Lindir í Kópavogi en á stærstum hluta N1 stöðva er verðið 236,80 krónur. Hjá ÓB-Olís er verðmunurinn 34,50 krónur eða 16,2%. Ódýrast er hjá ÓB við Arnarsmára Kópavogi, Bæjarlind Kópavogi og við Fjarðarkaup í Hafnarfirði eða 202,20 krónur á lítra en dýrast á flestum Olís stöðvum 236,70 krónur.  Hjá Orkunni munar mest 32,70 krónum á ódýrasta dropanum og þeim dýrasta. Ódýrast er hjá Orkunni við Dalveg í Kópavogi og við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði eða 202,10 krónur hæsta verðið hjá Orkunni er 16,2% hærra eða 234,80 krónur. Verðmunurinn hjá Atlantsolíu nær 31 krónu sem gerir 15,3%. Ódýrast er hjá AO við Sprengisand í Reykjavík og við Kaplakrika í Hafnarfirði eða 202,90 krónur en algengasta verðið er 233,90 krónur.  Dælan er eingöngu með stöðvar á höfuðborgarsvæðinu og þar kostar bensínlítrinn frá 209,80 til 219,80 króna.“

Hér undir má sjá skiptingu lítraverðs á bensíni miðað við algengasta verðið hjá N1 og hjá Costco. Mynd: FÍB.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Unglingalandsmóti frestað

Framkvæmdarnefnd Unglingalandsmóts UMFÍ í samráði við sóttvarnarlæknir og Almannavarnir hafa ákveðið að fresta mótinu sem fara átti fram á Selfossi... Lesa meira

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira