Andrea Björnsdóttir. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Andrea fær fjölda fyrirtækja til liðs við sig

Eins og margir þekkja hefur Andrea Björnsdóttir, sem nýverið var kjörin Skagamaður ársins 2019, haft það sem áhugamál að selja varning og sælgæti í anddyri Bónus og víðar. Vöruna kaupir hún inn á heildsöluverði en lætur síðan hagnað af sölunni renna óskiptan til einstaklinga eða fjölskyldna þeirra sem glíma við sjúkdóma. Þannig hefur hún á síðustu árum stutt við fjölmarga einstaklinga svo um munar. Andrea hefur fram að þessu sjálf lagt út fyrir kostnaði við innkaupin. Í síðustu viku framkvæmdi hún svo nýja útfærslu á fjáröflun sinni og biðlaði til fyrirtækja um að styrkja hana um höfuðstól innkaupsverðs þeirrar vöru sem hún er að selja hverju sinni. Lét hún boð út ganga á Facebook síðu sinni og nafngreindi svo fyrirtækin jafnharðan og stuðningi var lofað. Það skipti engum togum að viðbrögðin voru framúrskarandi. „Það kom í ljós að mjög margir voru tilbúnir til að styðja styrktarsjóðinn minn með þessum hætti. Upphæðin er 35 þúsund krónur sem dugar fyrir einni ferð í Góu eða til birgjans sem selur mér litlu hjörtun. Með þessum stuðningi tvöfaldast um leið það sem ég get látið af hendi rakna hverju sinni,“ segir Andrea í samtali við Skessuhorn. Í gærkvöldi höfðu sextán fyrirtæki heitið stuðningi við verkefnið, en þá voru fimm dagar frá því hún kynnti söfnunina. „Þetta eru fallegar viðtökur og sýnir mikinn samhug í verki,“ segir Andrea.

Líkar þetta

Fleiri fréttir