Starfsfólk Norðuráls að störfum í álverinu á Grundartanga. Ljósm. úr safni.

Ræða styttri vaktir í Norðuráli

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness hafa undanfarið fundað með forsvarsmönnum  Norðuráls um kjarasamninga starfsfólks fyrirtækisins. Sjötti fundurinn var á þriðjudaginn í síðustu viku og hafa viðræðurnar gengið þokkalega, að því er fram kemur á vef VLFA.

Þar kemur einnig fram að á síðustu fundum hafi töluverð áhersla verið lögð á að ræða breytingar á vaktakerfi í kerskála og steypuskála. Starfsfólk í ker- og steypuskála álversins á Grundartanga gengur tólf klukkustunda vaktir, en hugmyndir eru uppi um að skipta yfir í átta stunda vaktakerfi. „Eins og tíðkast í öllum sambærilegum verksmiðjum í orkusæknum iðnaði,“ ritar Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, á vef verkalýðsfélagsins.  „Hér yrði um gríðarlega breytingu að ræða ef samkomulag næst næst en í 12 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að skila 182 vinnustundum á mánuði en í 8 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að skila 145,6 vinnustundum á mánuði,“ skrifar formaðurinn. Hann segir að nýtt átta tíma vaktakerfi myndi leiða til þess að starfsmenn myndu, að frádregnu orlofi, vinna 324 vinnustundum minna á ári en nú í tólf tíma vaktakerfinu, eða 1552 vinnustundir í stað 1876 stunda áður. Það samsvarar 27 vinnustundum á mánuði. Vilhjálmur telur borðleggjandi að átta stunda vaktakerfi sé mun fjölskylduvænna en tólf stunda kerfi. „Að ógleymdu því að það er lýðheilsumál að draga úr miklu vinnuframlagi vaktavinnufólks sem vinnur alla daga ársins jafnt að degi, kveldi eða nóttu,“ segir Vilhjálmur.

Hann bætir því við að lokum að aðalkrafa starfsmanna í yfirstandandi viðræðum hvað launakjör varðar, sé að samið verði með sama hætti og síðast, þ.e. að kaup hækki í takt við breytingar á launavísitölunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir