Íslandspóstur boðar hækkun gjaldskrár og minni þjónustu

Íslandspóstur (ÍP) hefur boðað margvíslegar breytingar á þjónustu stofnunarinnar frá og með 1. maí næstkomandi. Meðal annars hefur útgefendum bæjar- og héraðsfréttablaða verið tilkynnt um að vöruflokkurinn „Blöð og tímarit“ verður lagður niður frá 1. maí og því munu skilmálar í þeim viðskiptum versna samhliða því að dregið er stórlega úr afsláttum vegna magnsendinga. Verð mun því hækka á öllum nafnmerktum blöðum og tímaritum, misjafnlega mikið eftir upplagi viðkomandi fjölmiðils. Hækkunin nemur 26-28% samkvæmt heimildum Skessuhorns. Þá mun Íslandspóstur sömuleiðis frá 1. maí hætta dreifingu á ónafnamerktum fjölpósti á Akranesi, Reykjanesi, Selfossi og höfuðborgarsvæðinu. ÍP mun halda áfram að bjóða upp á dreifingu á fjölpósti á öðrum svæðum og í dreifbýli landsins þar sem önnur samkepni er ekki til staðar. Í tilkynningu frá ÍP er því haldið fram að sparað verði 200 milljónir króna í rekstri á ári með því að hætta dreifingu fjölpósts á þéttbýlisstöðum suðvestanlands. Samhliða þessum breytingum var rúmlega 30 starfsmönnum sagt upp.

„Magn fjölpósts hefur dregist mikið saman á undanförnum árum og mikil fækkun almennra bréfa hefur haft það í för með sér að minni samlegðaráhrif eru á dreifingu bréfapósts og fjölpósts,“ segir í tilkynningu frá Íslandspósti. „Áður fóru bréfberar í nær öll hús með bréf og því féll það vel að starfseminni að dreifa fjölpósti á sama tíma en nú hefur bréfum fækkað svo mikið að oft fara bréfberar eingöngu með fjölpóst en engin bréf og því er lítill rekstrargrundvöllur fyrir þessari þjónustu.“

Íslandspóstur ohf. er í eigu íslenska ríkisins. Yfir fyrirtækinu er pólitískt kjörin stjórn sem ræður öllu um þjónustu og stefnumótun fyrirtækisins. Viðvarandi taprekstur hefur verið á starfsemi ÍP á liðnum árum, en fyrrgreindar breytingar á þjónustu og verðlagningu eru liður í að reyna að rétta reksturinn af.

Líkar þetta

Fleiri fréttir