Ljóst er að allar hugmyndir um þjóðgarð í Breiðafirði vekja upp blendnar tilfinningar hjá íbúum. Hér ræðir Unnsteinn Guðmundsson skotveiðimaður við frummælendur á fundinum í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Menn óttast þjóðgarð í firðinum

Þónokkur fjöldi fólks mætti á fund sem Breiðafjarðarnefnd hélt í Grundarfirði síðastliðið mánudagskvöld. Ljóst er að margir láta sig málefnið varða. Róbert Arnar Stefánsson, sem situr í nefndinni fyrir hönd Náttúrustofu Vesturlands, hélt erindi um lífríki Breiðafjarðar og á eftir honum steig Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar í pontu og sagði frá Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og þeim áhrifum sem hann hefur haft á byggðina. Eftir þessi tvö erindi stýrði Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar umræðum um efni fundarins.

Á fundinum voru skiptar skoðanir um framtíð Breiðafjarðar og ljóst að allar umræður um þjóðgarð í Breiðafirði vöktu ugg hjá fundargestum. Mönnum var heitt í hamsi er viðraðar voru hugmyndir um að gera fjörðinn að þjóðgarði og þar höfðu menn aðallega áhyggjur af stýringu hverskonar með tilheyrandi boðum og bönnum. Erla Friðriksdóttir formaður nefndarinnar, Kristinn Jónasson og Róbert Arnar Stefánsson sátu fyrir svörum frá fundargestum og spunnust málefnalegar umræður um framtíð svæðisins. Allir viðstaddir voru þá á eitt sammála um áframhaldandi sjálfbæra nýtingu og uppbyggingu á svæðinu á komandi árum og áratugum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir