Gunnar Ásgeir Gunnarsson leggur Gráa hernum lið í málsókn á hendur ríkinu um meinta óheimila skerðingu á lífeyri frá Tryggingastofnun.

„Eitt mesta réttlætismál sem brennur á samfélaginu í dag“

Grái herinn er baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og berst hópurinn fyrir bættum kjörum allra. Hópurinn hefur nú ákveðið að höfða mál á hendur ríkinu vegna meintra óheimilla skerðinga á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins til eftirlaunafólks og verður málið væntanlega þingfest á næstu vikum. „Sjálfboðaliðar hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi málsóknarinnar og 33 félög eldri borgara í landinu eru stofnaðilar að málsóknarsjóðnum,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Gráa hersins. Þar er biðlað til fólkst að leggja málsókninni lið með fjárframlagi, en gera má ráð fyrir að kostnaður við hana geti orðið verulegur. Einn þeirra sem hefur lagt málefninu lið er Gunnar Ásgeir Gunnarsson á Felli í Borgarfirði. Gunnar ætlar að leggja 5000 krónur mánaðarlega út þetta ár í málsóknarsjóð Gráa hersins.

Rætt er við Gunnar Ásgeir í Skessuhorni sem kom út í dag um þær skerðingar sem eldri borgarar upplifa á kjörum sínum. 

Líkar þetta

Fleiri fréttir