Biskupsvísitasía framundan í Vesturlandsprófastsdæmi

Séra Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands mun heimsækja Vesturlandsprófastsdæmi dagana 30. janúar til 3. febrúar næskomandi. „Þetta er fyrsta vísitasía biskups Íslands í nýju Vesturlandsprófastsdæmi frá 2010, þegar Borgarfjarðarprófastsdæmi og Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi voru sameinuð í eitt. Fyrrum víslubiskup, séra Kristján Valur Ingólfsson, vísiteraði prófastsdæmið ásamt prófasti árið 2017,“ segir séra Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur í samtali við Skessuhorn. Hann mun fylgja Agnesi á vísitasíu sinni um landshlutann. „Tilgangur biskupsvísitasíu er að heimsækja söfnuði landsins, skoða kirkjur, kirkjugarða, muni og eignir kirknanna. Biskup tekur m.a. þátt í helgihaldi, heimsækir stofnanir í prestaköllunum og fundar auk þess með prestum og sóknarnefndum um helgihald og trúarlíf,“ segir Þorbjörn Hlynur.

Vísitasía biskups í Vesturlandsprófastsdæmi hefst með heimsókn í Grunnskólann í Borgarnesi að morgni fimmtudagsins 30. janúar. Klukkan 14 sama dag verður guðsþjónusta í Brákarhlíð í Borgarnesi og klukkan 20 verður messa í Borgarneskirkju þar sem biskup predíkar. Föstudagur 31. janúar hefst dagskráin klukkan 10:30 í Akrakirkju, síðan í Álftártungukirkju klukkan 14 og Álftaneskirkju klukkan 16.

Fyrsta heimsókn í Garða- og Saurbæjarprestakall

Vísitasía biskups heldur svo áfram á sunnudaginn með heimsókn í hið nýja Garða- og Saurbæjarprestakall dagana 2. og 3. febrúar. Biskup mun þar heimsækja allar kirkju prestakallsins; Akraneskirkju, Leirárkirkju og Hallgrímskirkju í Saurbæ sunnudaginn 2. febrúar og Innra-Hólmskirkju mánudaginn 3. febrúar. Í ferð sinni á mánudeginum mun biskup einnig heimsækja Dvalarheimilið Höfða og Fjöliðjuna á Akranesi. Að sögn séra Þráins Haraldssonar sóknarprests mun biskup skoða kirkjurnar og ræða við presta og sóknarnefndir um starfið í þeim. Þetta er fyrsta vísitasía biskups í hinu nýja sameinaða prestakalli, en biskup Íslands vísiteraði prestaköllin síðast árið 2002.

Hátíðarmessa verður í Akraneskirkju sunnudaginn 2. febrúar kl. 11. Biskup predikar og prestar prestakallsins þjóna fyrir altari. Þessi messa er sameiginleg fyrir allt prestakallið. Þráinn Haraldsson sóknarprestur hvetur íbúa í prestakallinu til að fjölmenna í kirkju þennan dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir