Svipmynd frá foreldramorgnum sem eru á fimmtudögum.

Rýmri opnun Bókasafns Akraness

Bókasafn Akraness hefur tekið upp þá nýbreytni á nýju ári að opna safnið klukkan 10:00 virka daga og býður þá upp á „Opnun án þjónustu“. Klukkan 12 er safnið svo opnað með fullri þjónustu. „Á síðasta ári var starfsemi safnsins endurskoðuð og hugað að framtíðar þess. Efnt var til vinnufundar undir stjórn sérfræðinga frá Advanina með starfsfólki bókasafnsins, menningar- og safnanefnd, forstöðumanni menningar- og safnanefndar og fulltrúum íbúa á Akranesi. Unnið var út frá hugmyndafræði sem nefnist Design Thinking, en þar gegna notendur lykilhlutverki, hvort sem það er í þróun þjónustu eða innviða,“ segir Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður. „Eitt af því sem kom fram á vinnufundinum með íbúum var að safnið mætti opna fyrr að deginum og almennt mætti afgreiðslutíminn verða mun rýmri en hann hafði verið.“

Halldóra segir að rýmri opnun sé ekki að öllu leyti nýlunda á Bókasafni Akraness, því allt frá því að safnið tók til starfa á Dalbraut 1 árið 2009, hefur það verið opið að morgni fyrir ýmsa hópa, svo sem frá leikskólum bæjarins og grunnskólum. Foreldramorgnar eru á fimmtudögum og greiningarfundir Ljósmyndasafnsins eru á miðvikudögum.

„Með rýmri opnun bjóðum við árrisula gesti velkomna í safnið að skoða bækur, tímarit og dagblöð. Fá sér kaffisopa, nota þráðlaust net, komast í tölvu, taka bækur að láni í sjálfsafgreiðslu og skila. Í safninu er ein sjálfsafgreiðsluvél og einnig leitartölva þar sem gestir geta flett upp safnkosti. Í lessalnum Svöfusal verður áfram opnað klukkan 8:00 virka daga og er hann opinn til kl. 18:00. Gengið er inn að norðanverðu. Allir námsmenn hafa aðgang að Svöfusal meðan safnið er opið. Auk þess geta námsmenn sótt um aðgangskort og haft ótakmarkað aðgengi að Svöfusal. Fjöldatakmörkun er þó að þessu aðgengi, að sögn Halldóru.

„Fyrirkomulag af þessu tagi, Opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs, Bókasafni Mosfellsbæjar og Amtsbókasafninu á Akureyri. Þessi breyting hefur þegar tekið gildi og hvet ég fólk hvatt til að kynna sér fjölbreytta starfsemi bókasafnsins. Verið velkomin á Bókasafn Akraness,“ segir Halldóra Jónsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir