Fjölbýlishúsið við Holtsflöt 4 á Akranesi hefur nú verið selt og leigusamningi íbúa verið sagt upp.

Íbúum í fjölbýlishúsum sagt upp húsaleigu

Leigufélagið Heimavellir sagði nýverið upp húsaleigu allra þeirra sem leigja af þeim íbúðir í fjölbýlishúsinu Holtsflöt 4 á Akranesi, alls 18 fjölskyldum. Það er gert í kjölfar þess að fyrirtækið seldi húsið í byrjun árs. Í tilkynningunni frá Heimavöllum kemur fram að leigusamningar hafi verið seldir með húsinu, en nú hafi komið í ljós að nýir eigendur hafa ekki í hyggju að leigja íbúðirnar áfram heldur fara þær allar í sölu. Lítið framboð er af leiguhúsnæði á Akranesi og því sjá íbúar í húsinu fram á veruleg vandræði þegar leigusamningar þeirra renna út. Þeir fyrstu renna út í lok mars og aðrir nokkrum mánuðum síðar. Heimavellir hafa selt fleiri fjölbýlishús á Akranesi, en húsið við Holtsflöt 4, á liðnum misserum og snertir því kúvending fyrirtækisins í leigumiðlun afar marga íbúa á Akranesi, enda hefur fyrirtækið verið umsvifamikið á markaði eftir að það fékk þessar fasteignir ásamt fleirum í öðrum sveitarfélögum keyptar af ríkinu með afar góðum kjörum í gegnum Íbúðalánasjóð fyrir um fjórum árum.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness vakti athygli á málinu á Facebook síðu sinni fyrir helgi og uppskar mikla athygli fjölmiðla. „Það er óhætt að segja að pistill minn hafi vakið gríðarlega athygli, en þar fjalla ég um ótrúlega og siðlausa framkomu leigufélagsins Heimavalla í garð leigjenda að Holtsflöt 4 á Akranesi. Það er í raun rannsóknarefni að Heimavellir sem keyptu þessar íbúðir á sérstökum sérkjörum af Íbúðalánasjóði árið 2016 skuli geta einungis fjórum árum eftir kaupin komist upp með að selja allar eignirnar og skilja um leið 18 fjölskyldur eftir í fullkominni óvissu,“ skrifar Vilhjálmur.

Meðal þeirra viðbragða sem orðið hafa við skrifum Vilhjálms er að Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi hefur heitið því að brugðist verði við stöðunni og að reynt verði að koma til móts við íbúa sem standa frammi fyrir að verða húsnæðislausir. Þær hugmyndir eru á byrjunarstigi en samkvæmt frétt mbl.is um helgina er stefnt að því að fá Bríet, opinbert leigufélag í eigu ríkisins, til að fjölga íbúðum á svæðinu. Eitt af markmiðum með stofnun félagsins er að stuðla að virkum leigumarkaði á landsbyggðinni í samstarfi við sveitarfélög.

Líkar þetta

Fleiri fréttir