Andrea Þ Björnsdóttir Skagamaður ársins 2019 með blóm og málverk eftir Bjarna Þór Bjarnason listamann. Á myndinni má sjá hinn vakandi engil gnæfa yfir Kirkjufellinu, á æskuslóðum Andreu. Ljósm. Sandra Björk.

Andrea er Skagamaður ársins 2019

Andrea Þ. Björnsdóttir er Skagamaður ársins 2019. Þetta var tilkynnt á Þorrablóti Skagamanna sem fram fór í Íþróttahúsinu við Vesturgötu í gærkvöldi. Það er bæjarráð Akraness sem staðfestir val á Skagamanni ársins hverju sinni. Fram kom í ávarpi sem Elsa Lára Arnardóttir, formaður bæjarráðs flutti, að Andrea hljóti verðlaunin fyrir óeigingjarnt starf hennar við aðstoð við þá sem glíma við alvarleg veikindi. Hún er sífellt að gefa af sér í þágu annarra og kjörorð hennar er „Það er ljúft að hjálpa“. Þessa köllun hafi hún fengið fyrir mörgum árum og vill hún með því færa þakkir fyrir þá aðstoð sem hún sjálf hefur þegið og börn hennar. Andrea nýtir lausar stundir til að selja varning til stuðnings þeim sem glíma við veikindi. Kaupir meðal annars afskurð af lakkrís sem til fellur við framleiðsluna í verksmiðjunni og selur ferskan eftir pöntunum og með því að standa vaktir í verslanamiðstöðvum og víðar. Nýtur hún einnig aðstoðar barna sinna við söluna. Andrea hefur staðið fyrir þessu starfi í mörg ár, en þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Andrea er verðlaunuð fyrir mannúðarstörf sín, en hún var kjörin Vestlendingur ársins 2016 af lesendum Skessuhorns fyrir starf sitt í þágu sjúkra og annarra sem þurfa aðstoð.

„Við þurfum alltaf að hjálpa náunganum, megum ekki undir neinum kringumstæðum gleyma þeim sem hjálpar er þurfi,“ segir Andrea í samtali við Skessuhorn og bætir við: „Það er ekkert sem gefur mér meira í lífinu en að leggja þeim lið sem þurfa. Því er ég afar þakklát fyrir þessa viðurkenningu sem samfélagið hér á Akranesi er að veita mér.“

Amma Andrea

Við kynningu á Skagamanni ársins sagði Elsa Lára Arnardóttir meðal annars: „Skagamaður ársins er fæddur í Grundarfirði en flutti hingað á Flórídaskagann fyrir mörgum árum síðan. Hefur búið hér á Skaganum og utan hans frá þeim tíma, en flutti aftur heim fyrir nokkrum árum síðan. Skagamaður ársins hefur sinnt ýmsum störfum, m.a. í skóla, við heimilishjálp og hjá HB Granda. Áhugamálin eru samvera með börnum og barnabörnum, prjónaskapur, bakstur og að láta gott af sér leiða. Undanfarin ár hefur Skagamaðurinn svo sannarlega látið gott af sér leiða með því að safna fyrir þá sem þurfa að takast á við stór verkefni í lífinu eins og alvarleg veikindi. Ég veit að stuðningurinn hefur skipt máli og sá hlýhugur sem fylgir í verki fer ekki fram hjá neinum. Leiðarljós Skagamanns ársins í þessu verkefni er að gefa til baka þann stuðning sem hann fékk fyrir sjálfan sig og börnin sín fyrir mörgum árum síðan. Þetta er merki um fallegt hjartalag og einstaka hugsun. Samkvæmt mínum upplýsingum elskar Skagamaður ársins bleikt og engla. Skagamaður ársins gengur oft undir nafninu „Amma Andrea“ og er nafnið til komið vegna þess að hún er tilbúin til að vera amma allra barna sem þurfa á að halda.“

Góðverkum vill gjarnan sinna

Líkt og venja er þegar Skagamaður ársins er valinn er flutt ljóð sem Heiðrún Jónsdóttir starfmaður á bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar hefur sett saman.

 

Flutti hingað forðum daga

fann sinn bústað hér á Skaga.

Oft þó væri ekki gaman

endum frægum ná hér saman,

og fengjust engir fullir sjóðir

fundust aðrir kostir góðir.

 

Ýmis störfin unnið hefur

af sér hlýju og kærleik gefur.

Góðverkum vill gjarnan sinna

gleðja þá sem hafa minna.

Aðstoðin var áður þegin,

annarra nú greiðir veginn.

 

Allskonar vill englum safna

aldrei bleikum litum hafna.

Elskar sína afkomendur,

öðrum börnum réttir hendur.

Faðmar krakkaanga alla,

ömmu hana margir kalla.

(Heiðrún Jónsdóttir.)

Andrea var kosin Vestlendingur ársins 2016 fyrir störf sín að mannúðarmálum. Hér er mynd frá því tilefni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir