Skjámynd úr kynningarmyndbandi um þættina.

Þættirnir Á hálum ís teknir til sýningar í næsta mánuði

Ríkissjónvarpið tekur í næsta mánuði til sýningar nýja þáttaröð sem nefnist Thin Ice, sem þýði mætti; Á hálum ís. Þættirnir voru að stærstum hluta teknir upp í Stykkishólmi á fyrstu fjórum mánuðum liðins árs, en bærinn var eins og kom fram í Skessuhorni, dulbúinn sem Grænland og mikill fjöldi tökufólks og leikara staddur þar á tímabili. Þættirnir eru samframleiðsluverkefni Sagafilm og Yellow Bird en handritið var skrifað af þremur íslenskum handritshöfundum, þeim Birki Blæ Ingólfssyni, Jónasi Margeiri Ingólfssyni og Jóhanni Ævari Grímssyni. Þáttaröðin Thin Ice var stærsta íslenska kvikmyndaverkefnið sem ráðist var í á síðasta ári og eitt af stærri verkefnum á Norðurlöndunum. Verða þættirnir því teknir til sýningar á öllum Norðurlöndunum í febrúar og mars og fara í sýningar víðsvegar um Evrópu í kjölfarið. Leikkonan Lena Endre fer með aðalhlutverkið í þáttunum en leikstjórar eru Cecilie Mosli, Thale Persen og Guðjón Jónsson.

Hluti af höfundum handritsins dvaldi á Grænlandi á meðan á skrifum stóð því þeir vildu kynnast landi og þjóð sem best til að geta gert efninu góð skil. Í þáttunum er sagt frá því þegar Svíþjóð reynir að fá Norðurskautsráðið til að banna olíuvinnslu í Norðurhöfum og sænskt skip verður fyrir árás undan ströndum Grænlands. Ráðamenn verða að ákveða hvort þeir eigi að fresta fundinum vegna hryðjuverksins eða halda samningaviðræðum til streitu þrátt fyrir yfirvofandi ógn um fleiri árásir. Í framvindunni vegast á skammtímahagsmunir hvers þjóðríkis og framtíðarhagsmunir allrar heimsbyggðarinnar vegna loftslagsbreytinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir