Indriði Jósafatsson.

Landsréttur vísar frá beiðni um áfrýjun máls

Landsréttur hafnaði því með úrskurði 17. janúar síðastliðinn að verða við beiðni Akraneskaupstðar um áfrýjun dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá síðasta ári þar sem umsækjanda um starf forstöðumanns íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar voru dæmdar miskabætur þar sem framhjá honum hafði verið gengið við ráðningu í starfið. Var umsækjandanum, Indriða Jósafatssyni, dæmdar 700 þúsund króna miskabætur auk vaxta samkvæmt úrskurði héraðsdóms sem Landsréttur hefur nú staðfest. „Nú er endanlega staðfest að á mér var brotið með saknæmum hætti í ráðningarferli um starf forstöðumanns íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar og hefur nú bæði héraðsdómur og Landsréttur staðfest það,“ segir Indriði í samtali við Skessuhorn.

Í niðurstöðu þriggja dómara í Landsrétti segir m.a.: „Vísað er til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í málinu reyni á túlkun á meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga. Þar sem reglurnar segi ekki fyrir um með nákvæmum hætti hvernig skuli staðið að ráðningarferli séu dómar um þetta afar þýðingarmiklir. Málið varði mikilsverða hagsmuni umsækjanda þar sem ljóst sé að dómurinn varði mun meiri fjárhagslega hagsmuni en þær 700.000 krónur sem umsækjanda var gert að greiða gagnaðila.“

„Það er ljóst að ég fór í þessa málssókn til að krefjast skýringa og fá rökstuðning á þessari ráðningu þar sem ég kom vel út úr viðtali og var með mun meiri menntun og reynslu í málaflokknum en sá sem fékk starfið. Nú er úr því skorið að þarna var haft rangt við og nú þurfa væntanlega þeir sem það gerðu að gefa skýringar á því. Mér gekk það eitt til með þessari málssókn að bæta og vanda stjórnsýsluna og hér með er þetta mál vonandi orðið fordæmisgefandi við aðrar sambærilegar ráðningar sveitarfélaga,“ segir Indriði Jósafatsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir