Gustur SH á Bátadögum á Breiðafirði. Ljósm. úr fornbátaskrá.

Fornbátaskrá og leiðarvísir um varðsveislugildi gamalla báta

Samband íslenskra sjóminjasafna gaf nýverið út fornbátaskrá og leiðarvísi við mat á varðveislugildi eldri báta og skipa. Útgáfan er afrakstur mikillar vinnu undanfarin ár og hefur það að meginmarkmiði að vekja aukna athygli á stöðu bátaverndar í landinu. Um tuttugu söfn, setur og sýningar um land allt eiga aðild að samtökunum.

„Tilgangurinn með gerð fornbátaskrárinnar er að safna upplýsingum um varðveitta fornbáta og gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu; þ.e. hvaða bátar hafa verið teknir til varðveislu, gefa greinargóða lýsingu á þeim, segja sögu þeirra og fleira. Lögð var áhersla á gildi einstakra báta en einnig að fá yfirsýn yfir hvað til er í landinu og draga fram sérstöðu bátanna sem hluta af heild.

Skránni er ætlað að stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki. Það getur bæði átt við um ný aðföng á söfnum, báta sem ekki hafa hlotið formlega viðurkenningu sem safngripir og grisjun, en þá er yfirsýn grundvallaratriði. Þá mun skráin væntanlega einnig koma að gagni við styrkveitingar. Ennfremur er skránni ætlað er að gera bátaarfinn sýnilegan umfram það sem nú er í þeirri von að auka skilning stjórnvalda og almennings á gildi hans. Skráin mun jafnframt stórbæta aðgengi almennings að þessum hluta menningararfsins og auðvelda frekari rannsóknarvinnu,“ segir í tilkynningu frá útgefendum.

Ritin má nálgast hér: http://batasmidi.is/files/

Líkar þetta

Fleiri fréttir