Boðað til íbúafunda í Borgarbyggð í næstu viku

Sveitarstjórn Borgarbyggðar boðar til alls fimm íbúafunda í næstu viku. Stærsti fundurinn verður íbúafundar haldinn verður í mennta- og menningarhúsinu Hjálmakletti að Borgarbraut 54 í Borgarnesi þriðjudaginn 28. janúar n.k. kl. 20:00. Þar verður fjárhagsáætlun Borgarbyggðar kynnt. Í kjölfarið verður kynning á úrgangsmálum í sveitarfélaginu, meðal annars söfnun lífræns úrgangs og dýraleifa. Streymt verður beint frá fundinum í Hjálmakletti og hann því gerður öllum aðgengilegur. Að sögn Maríu Neves, verkefnastjóri atvinnu-, markaðs- og menningarmála hjá Borgarbyggð er aukin rafræn þjónusta í takt við þá stefnu sveitarfélagsins að gera þjónustu aðgengilegri fyrir alla íbúa. Streymið frá fundinum verður aðgengilegt á Facebooksíðu Borgarbyggðar. Þá verður einnig stuðst við nútímalegar lausnir með því að íbúar geti sent inn fyrirspurnir beint á fundinnn. Að loknum kynningum munu sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð sitja fyrir svörum.

Fjórir fundir um úrgangsmál

Auk fundarins í Hjálmakletti verða fjórir fundir þar sem einungis úrgangsmál verða til umfjöllunar. Þeir fundir verða haldnir á eftirtöldum stöðum:

  • 27. janúar kl. 20:00: Lyngbrekka
  • 28. janúar kl. 18:00: Þinghamar
  • 29. janúar kl. 18:00: Landbúnaðarháskóla Íslands Hvanneyri
  • 29. janúar kl. 20:30: Logaland
Líkar þetta

Fleiri fréttir