Körfubolti. Ljósm. úr safni/ jho.

Áhorfandi veittist að leikmönnum og þjálfara

Körfuknattleikssamband Íslands hefur sektað Körfuknattleiksfélag ÍA um 50 þúsund krónur vegna háttsemi stuðningsmanns félagsins í leik ÍA og Njarðvíkur í bikarkeppni 10. flokks karla. Umræddur leikur var spilaður á Jaðarsbökkum á Akranesi 15. janúar síðastliðinn.

Í atvikaskýrslu frá dómara leiksins kemur fram að undir lok leiks, þegar leikmaður Njarðvíkur átti tvö vítaskot, hafi ungur áhorfandi á bandi heimaliðsins komið úr stúkunni að endalínu og látið þar öllum illum látum svo leikmaðurinn brenndi af vítinu. Mat dómara var að þetta væri óeðlileg truflun og lét hann endurtaka vítið. Undir lok leiks fór áhorfandinn ungi síðan að varamannabekk Njarðvíkinga, þar sem þeir fögnuðu sigri og hrinti einum leikmanni liðsins sem stóð uppi á stól. Ýtti hann einnig við fleiri leikmönnum Njarðvíkur og þjálfara þangað til formaður ÍA dró hann í burtu.

Fram kemur í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KKÍ að ÍA harmi atvikið og að áhorfandinn, ásamt föður sínum, hafi haft samband við formann KKÍ sama kvöld og beðist afsökunar á hegðun sinni og reynt að koma þeim skilaboðum áleiðs til leikmanna Njarðvíkurliðsins.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi áhorfandans teljist vítaverð og hættuleg og á engan hátt hluti af leiknum. ÍA var því áminnt vegna atviksins og gert að greiða sekt að fjárhæð 50 þúsund krónur til KKÍ vegna háttsemi áhorfandans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir