Hraunháls í Helgafellssveit. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Afurðahæsta kúabú landshlutans er á Hraunhálsi

Þriðja afurðahæsta búið á landsvísu

Afurðahæsta kúabú Vesturlands 2019 og þriðja afurðahæsta bú landsins er bú Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar og Guðlaugar Sigurðardóttir á Hraunhálsi í Helgafelssveit. Meðalnyt árskúa á Hraunhálsi var 8.307 kg mjólkur. Þetta má sjá í niðurstöðum skýrsluhalds í nautgriparækt fyrir árið 2019, sem birtar voru á vef Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins í morgun.

Hraunhálsbúið hefur iðulega verið meðal afurðahæstu kúabúa landsins undanfarinn áratug eða svo. Er þetta til að mynda annað árið í röð sem búið er það afurðahæsta á Vesturlandi og það þriðja afurðahæsta á landsvísu. Jafnframt hafa kýrnar á Hraunhálsi alloft verið með afurðahæstu kúm landsins.

Eyberg bóndi var að vonum ánægður þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið núna í morgun. „Þetta er alltaf gaman en við reynum að passa okkur að vera aldrei í fyrsta sæti, þá höfum við ekki að neinu að stefna,“ segir Eyberg léttur í bragði, en áréttar að það sé ekki markmið í sjálfu sér að komast á einhverja topplista. „Við reynum bara að gera okkar besta, gera vel við kýrnar og standa okkur í þessu. Það hefur blessunarlega gengið vel hjá okkur hjónunum við búskapinn og við reynum að sinna þessu samviskusamlega,“ segir hann.

Nánar verður rætt við Eyberg bónda í næsta tölublaði Skessuhorns sem kemur út á miðvikudag.

Afurðahæsta kýrin á Lyngbrekku

Í niðurstöðum skýrsluhaldsins kemur einnig fram að afurðahæsta kýrin á Vesturlandi er kýr númer 1377801-0643 á Lyngbrekku á Fellsströnd. Er hún jafnframt fimmta afurðahæsta kýr landsins, með 13.219 kg mjólkur.

Þá má einnig geta þess að afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit komst á síðasta ári í hóp þeirra gripa sem rofið hafa 100 tonna mjólkurmúrinn í æviafurðum. Það gerði hún um mánaðamót nóvember og desember, eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir