Áætla framkvæmdir fyrir 132 milljarða

Á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins, sem fram fer á Grand Hótel Reykjavík í dag, eru fulltrúar tíu opinberra aðila sem kynna áætlaðar verklegar framkvæmdir á þessu ári. Fram kom að áætlað er að framkvæma fyrir 132 milljarða króna sem er aðeins fjórum milljörðum króna hærri upphæð en kynnt var á Útboðsþingi síðasta árs. Vegagerðin er með hæstar áætlaðar framkvæmdir að upphæð tæpir 39 milljarðar króna sem er tæplega 17 milljörðum króna meira en kynnt var á síðasta ári. Isavia gerir ráð fyrir framkvæmdum fyrir 21 milljarð króna og Reykjavíkurborg fyrir tæplega 20 milljarða króna. Í fyrsta sinn á þessu þingi eru sérstaklega kynntar verklegar framkvæmdir vegna Landspítala sem eru áætlaðar tæplega 12 milljarðar króna. Þá fyrirhugar Landsnet að bæta við framkvæmdir frá síðasta ári sem nemur 2,5 milljörðum króna. Auk fyrrgreindra aðila mun Landsnet framkvæma fyrir 11,7 milljarða, Framkvæmdasýsla ríkisins fyrir 9,3 milljarða, Orkuveita Reykjavíkur fyrir 13,3 milljarða og Faxaflóahafnir fyrir 2,2 milljarða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir