Bræðurnir Elfar Már og Styrmir Már Ólafssynir hafa nú tekið við rekstri Bókhalds- og rekstrarþjónustu Ólafs Helgasonar. Ljósm. aðsend.

Taka við rekstri bókhaldsstofunnar eftir fráfall föðurs þeirra

Bræðurnir Styrmir Már og Elfar Már Ólafssynir hafa tekið yfir rekstur Bókhalds- og rekstrarþjónustu Ólafs Helgasonar í Borgarnesi. „Pabbi hafði rekið þessa bókhaldsstofu í fjölmörg ár áður en hann féll frá í nóvember á síðasta ári. Hann bað okkur bræður að koma inn í fyrirtækið í fyrra en það stóð alltaf til að við myndum teka við rekstrinum á endanum. Í júlí eða ágúst í fyrra var pabbi orðinn of veikur til að sinna þessu og þá tókum við alveg við öllu,“ segir Styrmir Már í samtali við Skessuhorn.

Þeir bræður vildu ekki að rekstur Bókhalds- og rekstrarþjónustu Ólafs Helgasonar myndi hætta eftir öll þessi ár. „Pabbi var með marga góða viðskiptavini sem höfðu verið hjá honum í mörg ár og taldi hann þá sem vini sína. Við vildum endilega halda þessu gangandi áfram,“ segir Styrmir. Styrmir lauk BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2015 og samhliða því námi vann hann á bókhaldsstofu föður síns. Þá hefur hann lokið mastersnámi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og á síðasta ári lauk hann prófi sem viðurkenndur bókari. Elfar er húsasmíðameistari að mennt og samhliða vinnu er hann í skóla að læra byggingafræði. Þeir bræður gera ráð fyrir að allir viðskiptavinir föðurs þeirra haldi áfram í viðskiptum hjá þeim nema þeir láti sérstaklega vita af öðru. „Svo erum við alltaf með dyrnar opnar fyrir nýjum viðskiptavinum sem leita til okkar,“ segir Styrmir. Hægt er að hafa samband við þá bræður í tölvupósti á bokrek@bokrek.is eða í síma 437-1009.

arg

Líkar þetta

Fleiri fréttir