Horft yfir hluta hafnarsvæðisins á Reykhólum frá bryggjunni. Þörungaverksmiðjan fyrir miðri mynd og húsnæði Norðursalts til hægri. Ljósm. úr safni/ bae.

Dýpkun Reykhólahafnar hefst innan tíðar

Verk- og kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar vegna dýpkunar Reykhólahafnar var lögð fram á janúarfundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps. Tilboð Hagtaks í verkið hljóðar upp á 36.750 þús. krónur og þarf sveitarfélagið að greiða 10% þess kostnaðar. Samþykkti sveitarstjórn að ráðstafa 3.650 þús. krónum í verkkaup vegna dýpkunar hafnarinnar. Verður þeim útgjöldum mætt af áætluðum rekstrarafgangi ársins, sem verður rétt rúm 41 milljón króna eftir breytinguna. Sveitarstjórn lýsti jafnframt yfir ánægju sinni með að nú stæði til að ráðast í dýpkun hafnarinnar, enda hefði það lengi staðið til.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, kveðst eiga von á að dýpkunarframkvæmdir geti hafist mjög fljótlega. Upphaf framkvæmda sé þó háð veðrinu. „Þeir [Hagtak; innsk. blms.] eiga eftir tveggja daga dýpkun á Arnarstapa en það hangir á veðrinu hvenær þeir klára það. Síðan tekur það væntanlega dag eða tvo að koma tólum og tækjum hingað á Reykhóla,“ segir Tryggvi í samtali við Skessuhorn í dag. „Þannig er það veðrið sem mun ráða því hvenær þeir komast en ég vona að það verði sem allra fyrst,“ segir sveitarstjórinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir