: Séra Geir Waage á hálsinum ofan við Reykholt. Ljósm. Guðlaugur Óskarsson.

Fyrirlestur um Reykhyltingana 1569-1807

Fyrirlestrar í héraði í Snorrastofu hefjast á nýju ári með fyrirlestri sr. Geirs Waage sóknarprests í Reykholti, þriðjudaginn 21. janúar kl. 20. Þar fjallar hann um forvera sína á Reykholtsstað og staðinn sjálfan frá árinu 1569 til 1807, þegar staðurinn var setinn af svonefndum Reykhyltingum.

Umbroti siðaskiptanna lýkur í Reykholti með því að síra Jóni Einarssyni var falinn staðurinn árið 1569. Með honum hefst tímabil er sama ættin hélt staðinn óslitið í 185 ár, afkomendur síra Jóns. Allir voru Reykhyltingar miklir merkismenn sinnar samtíðar. Frægastur þeirra síra Finnur Jónsson, sem fór úr Reykholti til að gegna biskupsdómi í Skálholti, sonur síra Jóns Halldórssonar í Hítardal, mesta fræðamanns 17. aldar og faðir herra Hannesar Finnssonar, síðasta Skálholtsbiskupsins. Allir voru þeir nátengdir Skálholti. Rakin verður ævi þessara presta og sögð á þeim deili. Einnig verður þess freistað að segja frá staðnum í þeirra tíð og farið nokkrum orðum um hann bæði fyrir og eftir.

Til viðbótar segir sr. Geir: „Skjalasöfnun Reykhyltinganna er við brugðið. Þegar konungur stofnaði Þjóðskjalasafnið lagði hann til safnsins biskupsskjalasöfnin úr Skálholti og frá Hólum og landsskjölin úr fórum embættismanna konungs. Að auki keypti hann skjalasafn kirkjustólsins í Reykholti sem frú Valgerður, ekkja herra Hannesar, hafði undir höndum og lagði til Landsskjalasafnsins. Hún giftist herra Steingrími Jónssyni biskupi í Laugarnesi við Reykjavík. Hjá honum byrjaði Jón Sigurðsson forseti það nám þekkingar á sögu og rjettindum Íslendinga er hann smíðaði úr vopnin sem skilaði oss að lyktum sigri í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Gildir þræðir sögu og þjóðmenningar liggja um hlöðin í Reykholti. Reynt verður að rífa einhverja þeirra upp úr for gleymskunnar í bili, ef veður og færð leyfir fundinn.“

Sr. Geir er fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 10. desember árið 1950. Hann lauk embættisprófi í guðfræði haustið 1978 og vígðist á sama hausti til Reykholts, sem hann hefur setið æ síðan.  Eins og fyrr segir í tilynningunni verður auðnan að ráða, hvort fært verður til fundarins, sem áætlað er að hefjist kl. 20. Boðið verður til kaffiveitinga og umræðna og aðgangseyrir er kr. 1000.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir