Meðfylgjandi mynd úr höfninni á Flateyri tók Steinunn Guðný Einarsdóttir íbúi á Flateyri og birtist hún á vef RUV.

Þrjú stór snjóflóð féllu á Vestfjörðum í gærkvöldi

Á tólfta tímanum í gærkvöldi féllu alls þrjú stór snjóflóð á Vestfjörðum; tvö á Flateyri og eitt úr fjallinu handan Suðureyrar í Súgandafirði. Það flóð olli flóðbylgju sem skall á höfnina og strandlengjuna við þorpið á Suðureyri. Enginn slasaðist þar en eignatjón er talsvert. Á Flateyri féllu tvö stór snjóflóð með tveggja mínútna millibili. Flóðvarnargarðar í hlíðinni ofan við þorpið virðast hafa að mestu komið í veg fyrir að flóðin féllu á hús, en þó fór spýja úr öðru þeirra yfir garðinn og í gegnum hús ofarlega í þorpinu. Fjórir voru í húsinu, kona og tvö ung börn sluppu en unglingsstúlka grófst undir snjó í herbergi sínu. Heimamenn í björgunarsveitinni höfðu snör handtök og tókst að koma stúlkunni til bjargar á innan við hálftíma, lítið slasaðri og hlúðu að henni. Önnu slys urðu ekki á fólki. Hins vegar er eignatjón í báðum þorpunum gríðarlegt, einkum á höfninni á Flateyri þar sem annað snóflóðið endaði og orsakaði flóðbylgju og eyðileggingu.

Mikill viðbúnaður var settur í gang strax í gærkvöldi og neyðarstigi lýst yfir. Það þýðir hæsti forgangur allra björgunar- og viðbragðsaðila sem í hlut eiga. Svæðisstjórn almannavarna á Vestfjörðum var samstundis virkjuð og Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð sömuleiðis. Ófært er landleiðina milli byggða á Vestfjörðum vegna fannfergis. Lán var að varðskipið Þór var í gærkvöldi statt í Ísafjarðarhöfn og var skipið sent af stað með mannskap og búnað til Flateyrar. Mikinn óhug setti að íbúum á þessum svæðum Vestfjarða enda fannfergi mikið og einangrun vegna ófærðar sem rekja má til óveðurs undanfarna daga.

Nú í birtingu verður auðveldara að meta tjón og stærð flóðanna, en ljóst að þau voru gríðarlega stór. Myndir sem birst hafa úr höfninni á Flateyri vitna vel um það tjón sem þar varð, þegar allir bátar slitnuðu frá bryggju, nokkrir sukku og smábátabryggjan hreinlega sópaðist burtu. Mikil mildi er hinsvegar að snjóflóðin virðast ekki hafa grandað fólki, engra er saknað.

Ljóst er að fjölmörgum var afar brugðið við þessi tíðindi sem fóru að berast á rafrænum fjölmiðlum undir miðnætti í gær. Fréttamenn Stundarinnar eru vel tengdir Flateyri og sögðu fyrstu fréttir á vef sínum. Aðrir fjölmiðlar ræstu út mannskap og smám saman fóru línur að skýrast fyrir þeim sem voru að fylgjast með tíðindum að vestan. Strax af fréttum Stundarinnar varð umfang flóðanna ljóst og þegar komið var vel framyfir miðnætti gátu margir andað léttar þegar ljóst þótti að ekki hefði orðið manntjón. Hins vegar eru aðstæður víða á Vestfjörðum með þeim hætti að veruleg snjóflóðahætta er áfram. Því gildir áfram neyðarstig sem almannavarnir lýstu yfir strax um miðnætti í gærkvöldi. Nú þegar tekur að birta mun verða hægt að greina nánar frá umfangi flóðanna og þeirri eyðileggingu sem þau skildu eftir sig.

Rétt er að benda á að Ríkissjónvarpið verður með aukafréttatíma í sjónvarpinu á hádegi. Einnig verður hægt að fylgjast með útsendingu á netinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir