Föstudagurinn DIMMI framundan í Borgarnesi

Föstudagurinn DIMMI verður haldinn í fjórða sinn í Borgarbyggð um næstu helgi. Þá eru íbúar hvattir til að taka hvíld frá raftækjum og njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum, hafa raunveruleg samskipti í stað rafrænna samskipta, brjóta upp á hversdagsleikann og lesa Skessuhorn við kertaljós.

„Þemað í ár er samvera fjölskyldunnar sem ég held að sé mjög viðeigandi á þessum árstíma þegar eiginlega allt er frekar leiðinlegt, jólin búin en þorrablótin ekki byrjuð og allt svo dimmt,“ segir Eva Hín sem skipuleggur viðburðinn ásamt Heiði Hörn. Í ár verður skrautfjöður viðburðarins ráðgátuleikur með sögulegu ívafi úr Egilssögu. „Landnámssetur Íslands styður dyggilega við bakið á viðburðinum og mun bjóða öllum fjölskyldum frítt á Egilssýninguna alla helgina. Þannig geta allir sótt sér kunnáttu til að leysa ráðgáturnar farsællega,“ segir Eva Hlín. Ráðgátuleikurinn er ætlaður fyrir alla fjölskylduna að leysa saman og reynir leikurinn á útsjónarsemi og samskipti. Leikurinn ætti að taka um 40-75 mínútur og hefur fólk til klukkan 19 á sunnudaginn til að ljúka honum. Fólk fær þátttökuseðla á Landnámssetrinu með vísbendingum sem koma fólki áfram á milli ákveðinna pósta þar sem fjölskyldurnar safna stimplum á seðilinn. Nöfn þátttakenda fara svo í pott og dregnir verða út vinningshafar mánudaginn 20. janúar.

DIMMA vasaljósagangan er fastur viðburður þennan DIMMA föstudag og búið er að setja upp endurskinsmerki sem vísa fólki í gegnum skóginn hjá Bjargi. Klukkan 17:30 á föstudeginum verður kuldagallajóga í rjóðri skógarins þar sem spilað verður á gong. „Það verður örugglega ótrúlega gaman að ganga þarna með vasaljósin á meðan gongið ómar,“ segir Eva Hlín. Klukkan 18 mun Hjörleifur sagnamaður segja rökkursögur. Stundvíslega klukkan 20:17 verður Sjóbaðsfélagið með DIMMA dýfu þar sem allir eru hvattir til að skella sér í sjóbað. „Ég veit að meðlimir í öðrum sjósunds- og sjóbaðsfélögum ætla að koma svo vonandi verður fjölmenni. Við skellum okkur svo saman í pottana við sundlaugina í Borgarnesi eftir sjósundið,“ segir Eva Hlín.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er hægt að finna á Facebooksíðu föstudagsins DIMMA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir