Stærstu göngustígar bæjarins voru malbikaðir á síðasta ári. Ljósm. úr safni/sá.

Mikið framkvæmdaár að baki í Stykkishólmi

Töluvert var um framkvæmdir á vegum Stykkishólmsbæjar á síðasta ári. Í nýjárspistli sem Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri ritar á heimasíðu bæjarins segir hann framkvæmdir við skólalóðina hafa byrjað í júní og gengið vel. „Fyrsta áfanga verksins er lokið og þ.m.t frágangi á bílaplaninu sem heppnaðist vel og m.a. mikil ánægja meðal foreldra með nýju sleppistæðin við skólann. Veigamiklar framkvæmdir voru fyrir framan Dvalarheimilið í Stykkishólmi þar sem bílaplan var lækkað og malbikað ásamt götunni fyrir framan húsið. Aðkoma að dvalarheimilinu er því stórbætt frá því sem áður var. Gert er ráð fyrir að frágangur fyrir framan dvalarheimilið verði kláraður á þessu ári. Þá voru m.a. tveir stærstu göngustígarnir í Stykkishólmi malbikaðir í sumar auk eins lítils, en þetta var eitt skrefið að bættum samgöngum á milli hverfa í Stykkishólmi, ásamt því að göngustígar í bæjarlandinu voru lagfærðir og/eða endurbættir. Með þessum framkvæmdum var stórum áföngum náð í átt að bættum samgöngum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í Stykkishólmi og á komandi árum er gert ráð fyrir að enn betur verði gert hvað varðar göngustíga og gönguleiðir í Stykkishólmi.“

Þá segir Jakob Björgvin að undurbúningur vegna uppbyggingar og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins í Stykkishólmi fyrir hjúkrunarheimili miði vel áfram, en að verkefninu koma Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands ásamt Stykkishólmsbæ.  „Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári en þar munu líta dagsins ljós 18 ný hjúkrunarrými í stað þeirra sem eru á dvalarheimilinu. Auk þess verður aðstaða bak- og endurhæfingardeildar bætt til muna. Þessar endurbætur munu bæta þjónustu og styrkja stöðu sjúkrahússins.“

 

Byggingariðnaður með blóma

Jakob Björgvin segir mikla grósku hafa verið í byggingariðnaði og mannvirkjagerð í Stykkishólmi undanfarin ár. „Mörg ný íbúðarhús hafa risið og fleiri munu rísa á þessu ári. Við það bætist að viðhald og endurbætur á eldri húsum hafa einnig verið áberandi. Húsnæðisverð er hátt og fasteignir ganga kaupum og sölum. Það er því deginum ljósara að í Stykkishólmi vill fólk búa enda hefur íbúafjöldi farið ört vaxandi undanfarin ár.

Fjöldi framkvæmda í bænum var á vegum framtakssamra Hólmara og fyrirtækja. Af þeim má nefna að húsnæði Marz- sjávarafurða, sem áður var pósthús, fékk t.a.m. andlitslyftingu, unnið er að því að breyta Langaskúr í jógahof, miklar framkvæmdir standa nú yfir á Hótel Stykkishólmi, aðstaða í stúkunni í íþróttamiðstöðinni var bætt svo um munar þegar ný sæti voru sett upp, ásamt viðhaldi og endurbótum íbúðarhúsa um allan bæ að ótöldum þeim íbúðarhúsum sem risu og/eða hafist var handa við að reisa og munu rísa á árinu 2020,“ segir m.a. í nýjárspistli bæjarstjóra Stykkishólms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Héldu tombólu fyrir RKÍ

Þær Esther Nanna Lýðsdóttir og Þóra Birna Jónsdóttir héldu nýverið tombólu til stuðnings Rauða krossinum. „Þessar duglegu stelpur söfnuðu 9.058... Lesa meira