Samið fyrir hönd starfsmanna sveitarfélaga í VLFA

Verkalýðsfélag Akraness undirritaði á föstudag nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögunum Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit. Gildistími samningsins er til loka september 2023. Samkvæmt honum hækka launataxtar um 17 þúsund krónur á mánuði frá síðustu áramótum, um 24 þúsund 1. apríl og um sömu fjárhæð um næstu áramót. Launin hækka svo um 25 þúsund krónur í ársbyrjun 2022. Einnig er ákvæði um að samningurinn taki sömu taxtabreytingum 1. janúar 2023 og samið verður um á hinum almenna vinnumarkaði. Einnig er í samningnum að finna sérstakt ákvæði um 90 þúsund króna eingreiðslu vegna afturvirkni samningsins og ákvæði um félagssjóð. Launagreiðendur eiga að greiða 1,5% af heildarlaunum starfsmanna í félagssjóð sem greitt verður úr 2. febrúar ár hvert. Fyrsta greiðsla úr sjóðnum kemur til útborgunar 1. febrúar næstkomandi og verður sú upphæð 61.000 kr. fyrir fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall.

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA fagnar því á síðu félagsins að samningar hafi loks náðst, en þeir hafa verið lausir í níu mánuði. Segir hann samninginn í meginatriðum í anda lífskjarasamningsins sem undirritaður var á síðasta ári. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi fagnar sömuleiðis á Facebook síðu sinni að samningar hafi náðst og þakkar Vilhjálmi fyrir hans þátt í því.

Líkar þetta

Fleiri fréttir