
Tveir togarar í loðnuleit með Árna Friðrikssyni
Í byrjun næstu viku mun rannsóknaskipið Árni Friðriksson halda til loðnuleitar og mælinga ásamt tveimur uppsjávarveiðiskipum Bjarna Ólafssyni AK-70 og Hákoni EA-148. Nokkurrar óvissu hefur að undanförnu gætt um þátttöku útgerða í loðnuleit, en nú hafa samningar tekist. Hafrannsóknastofnun hefur ótvírætt hlutverk að stunda stofnmælingar á loðnu líkt og á öðrum nytjastofnum og á grunni þeirra að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar úr þeim. „Það var mat Hafrannsóknastofnunar að þörf væri á að fá tvö skip í tvær mælingar frá útgerðinni auk RS. Árna Friðrikssonar,“ segir í tilkynningu samhliða því að kynnt er að skipin þrjú halda til leitar í næstu viku. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er nú á leið í slipp með bilaða vél og er að auki óhentugur í loðnuleit vegna smæðar sinnar. Þá er hann ekki með fellikjöl þannig að skipið er fljótt slegið út í bergmálsmælingum ef eitthvað er að veðri og sjólagi.
Áætlun er að ná mælingu á loðnu í janúar og aftur í fyrri hluta febrúar og verða niðurstöður þeirra notaðar til grundvallar fyrir fiskveiðráðgjöf vetrarvertíðarinnar.