Perlað í gær. Ljósmyndir: Kolla Ingvars.

Fjölmargir perluðu af krafti

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, stóð fyrir viðburðinum Perlað af Krafti á Akranesi á miðvikudaginn. Alls mættu 180 á svæðið og perluðu 782 armbönd. Einnig safnaðist fyrir 475.160 krónur í sölu á armböndum og öðrum söluvarningi sem er alveg hreint frábært, að sögn forsvarsmanna Krafts.

Viðburðurinn, sem haldinn var í Grundaskóla, var afar vel sóttur, þar sem fjölmargir Akurnesingar og nærsveitungar á öllum aldri komu saman og perluðu armbönd með áletruninni „Lífið er núna“. Þurfti að bæta við borðum og stólum á tímabili til að koma öllum fyrir í sal skólans.

Öll armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og hugsjón í hverju og einu einasta. Með þátttöku í viðburðinum aðstoðaði fólk Kraft í að standa við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra, þar sem armböndin eru seld til styrktar félaginu.

Í tilefni af 20 ára afmæli Krafts voru að þessu sinni perluð svokölluð Norðurljósaarmbönd, en þau verða seld í takmörkuðu upplagi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir