Elínbjörg Katrín Þorvarðardóttir ásamt hópi nemenda Leikskólans í Stykkishólmi og hluta starfsmanna skólans, fyrir framan fagurlega skreytt heimili Elínborgar. Ljósm. sá.

Bauð leikskólabörnum að skoða jólaljósin

Elínbjörg Katrín Þorvarðardóttir í Stykkishólmi er mikið jólabarn, svo ekki sé meira sagt. Eins og jólabarna er von og vísan þá skreytir Elínbjörg allt hátt og lágt á heimili sínu fyrir hátíðirnar, bæði innan húss og utan. „Ég er mikið jólabarn, var það reyndar ekki þegar ég var lítil en svo breyttist það. Mér þykir mjög gaman að skreyta og gera fínt í kringum mig, skreyti allt um miðjan nóvember, bæði inni og úti svo hér er allt uppljómað í sex til sjö vikur,“ segir Elínbjörg í samtali við Skessuhorn. „Mikið til eru þetta heimagerðar skreytingar sem ég hef útbúið sjálf, mér finnst það skemmtilegra en að kaupa skrautið,“ bætir hún við.

Skömmu fyrir jól, föstudaginn 20. desember, bauð Elínbjörg leikskólabörnum í Stykkishólmi í heimsókn til sín að skoða jólaljósin. „Þetta er í annað skiptið sem ég geri þetta hérna í Stykkishólmi, en ég gerði þetta líka á Flateyri þar sem ég bjó áður,“ segir Elínbjörg. „Ég hef haft jólasveinafætur sem vísa upp í loft á skúr hér í bakgarðinum hjá mér, sem snýr einmitt að leikskólanum. Þegar ég var búin að setja fæturna upp núna fóru börnin að spyrja mig hvenær þau fengju að koma í heimsókn. Þau biðu eftir þessu núna og það fannst mér mjög gaman,“ segir hún.

Börnin voru því að vonum ánægð þegar þau fengu að líta við hjá Elínbjörgu og skoða sig um í jólahúsinu hennar. „Það kom allur leikskólinn, um 70 börn. Yngsta deildin kom fyrst og svo koll af kolli. Þau fengu svo bara að gera það sem þau vildu heima hjá mér, skoða sig um, leika við gæludýrin og svona. Svo hafa börn líka bara gaman af því að koma inn til annars fólks,“ segir hún og kveðst ætla að halda áfram að bjóða leikskólabörnum heim í aðdraganda jólanna. „Ég reikna með að gera þetta áfram. Ef ég hef heilsu til þá langar mig til þess. Mér þykir alltaf voða gaman að hafa börn í kringum mig,“ segir Elínbjörg að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir