Sveitarstjóri, fulltrúar byggðarráðs og fyrirtækjanna þriggja sem nú hyggjast fara af stað með samstarf um byggingu nýs hverfis í Bjargslandi í Borgarnesi. Ljósm. Borgarbyggð.

Viljayfirlýsing um samstarf í uppbyggingu í Bjargslandi

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing á milli byggðarráðs Borgarbyggðar annars vegar og þriggja verktakafyrirtækja í Borgarbyggð hins vegar um að fara í samstarf um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Bjargslandi í Borgarnesi. Viljayfirlýsingin verður tekin fyrir í sveitarstjórn Borgarbyggðar á morgun til staðfestingar og í kjölfarið verður útbúið samkomulag á milli aðila um nánari útfærslu á samstarfinu. Um er að ræða heilt íbúðahverfi með fjölbýlis- par- og raðhúsum.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Steypustöðin/Loftorka, Borgarverk og Eiríkur J. Ingólfsson. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að vera rótgróin og traust fyrirtæki í Borgarnesi. Lilja Björg Ágústsdóttir starfandi sveitarstjóri Borgarbyggðar segir að töluverðu hafi verið úthlutað af lóðum í Borgarbyggð síðasta árið, enda hefur sveitarfélagið veitt afslátt af gatnagerðargjöldum. „Þrátt fyrir það hafa fáir enn sem komið er farið af stað að með byggingaframkvæmdir. Þetta verkefni er viðleitni til þess að hvetja til framkvæmda og frekari uppbyggingar á svæðinu,“ segir Lilja Björg. Hún segir að sveitarfélagið hafi einnig látið á síðasta ári vinna húsnæðisáætlun sem leiddi í ljós að skortur er á litlu og meðalstóru húsnæði í Borgarbyggð. „Leita þarf leiða til að auka framboð. Þetta samstarf við fyrirtækin þrjú gengur í grófum dráttum út á að verktakarnir munu sjá um uppbyggingu á ákveðnu svæði þar sem undir eru fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús,“ segir Lilja Björg. Vinna þarf deiliskipulagsbreytingu vegna fyrirhugaðs byggingarsvæðis en samkvæmt heimildum Skessuhorns er horft til þess að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir