Samkomulag vegna loðnuleitar í höfn

Hafrannsóknarstofnun mun greiða útgerðum sem leggja stofnuninni lið við loðnuleit helming þess kostnaðar sem af úthaldinu hlýst, samtals um 30 milljónir króna. Útgerðirnar munu leggja tvö skip til við loðnuleitina, sem munu leita ásamt rannsóknarskipi Hafró. Morgunblaðið greinir frá. Þar er eftir Sigurði Guðjónssyni, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, að honum sé léttir að samkomulagið sé í höfn. „Þetta er mjög mikilvægt til að reyna að ná góðri mælingu. Vonandi er nóg af loðnu þannig að það verði einhver vertíð,“ er haft eftir Sigurði. Samkomulag um greiðslu vegna loðnuleitarinnar náðist á fundi hans með fulltrúum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þriðjudaginn 7. janúar.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson heldur til loðnumælinga á mánudaginn, 13. janúar, ef veður leyfir en annars fyrsta dag sem gæftir leyfa. Sem fyrr segir munu tvö skip útgerðarinnar fara til móts við hann, en ekki liggur fyrir hvaða skip það verða. Fjármögnun viðbótarkostnaðar vegna loðnuleitar hefur ekki verið tryggð, en Sigurður vonast til að fjárveitingarvaldið komi til móts við Hafró í þessu verkefni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir