Borgarnes og Hafnarfjall. Ljósm. úr safni/ Óli Haukur.

Vatnstruflanir vegna rafmagnsleysis

Truflanir urðu á afhendingu á heitu og köldu vatni í Borgarnesi og köldu vatni í hluta Borgarfjarðar í gærkvöldi, þriðjudaginn 7. janúar, vegna rafmagnstruflana. Um var að ræða rafmagnsbilanir í Norðurárdal annars vegar og frá Vatnshömrum að Hafnarmelum hins vegar. „Það sem gerðist í gær var að það urðu truflanir á afhendingu rafmagns. Dælurnar okkar á Seleyri duttu út, þar sem þær eru knúnar rafmagni. Þær voru úti í um 40 mínútur, þar til Rarik tókst að koma aftur rafmagni á dælurnar, en þeir voru afskaplega samvinnuþýðir við okkur,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við Skessuhorn. „Einnig lækkaði þrýstingur á köldu vatni frá Grábrók í um það bil 30 mínútur í gærkvöldi,“ segir hún, en það má rekja til rafmagnstruflana í Norðurárdal.

Færanlegt varaafl

Ekki eru varaaflsstöðvar við dælurnar á Seleyri og í Grábrókarhrauni. Ólöf segir stefnu fyrirtækisins að vera með færanlegt varaafl. „Við erum með varaafl víða en ekki á þessum stöðum. Stefna fyrirtækisins er að vera ekki með slíkar fastar varaaflsstöðvar, heldur að vera með færanlegt varaafl til að bregðast við þegar verða lengri afhendingarbrestir,“ segir Ólöf að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir