Nýja ísvél Fiskmarkaðar Íslands í Rifi mun framleiða um 20 tonn af ís á sólarhring. Ljósm. Aron Baldursson.

Fiskmarkaður Íslands kaupir nýja ísvél í Rif

Seint á síðasta ári keypti Fiskmarkaður Íslands nýja og öfluga ísvél sem komið var fyrir í útibúi fiskmarkaðarins í Rifi. Stefnt er að gangsetningu hennar á næstu dögum, en hún kemur til með að framleiða 20 tonn af ís á sólarhring.

Vélin var keypt af KAPP ehf. í Garðabæ, sem einnig annaðist uppsetningu á dreifikerfi íssins í kör, en slíkt hagræðir mikið þjónustu við vélina sjálfa. „Það má segja að menn séu ískaldir á Snæfellsnesi,“ segir Aron Baldursson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Íslands hf., léttur í bragði og vísar til þess að Fiskmarkaður Snæfellsbæjar keypti nýverið ísverksmiðjuna í Ólafsvík, eins og fram hefur komið í Skessuhorni.

Aron segir nýju ísvél Fiskmarkaðs Íslands í Rifi skapa mikið hagræði fyrir fyrirtækið, þar sem til þessa hafi fiskmarkaðurinn þurft að kaupa ís fyrir útibúið í Rifi, bæði úr Ólafsvík og Grundarfirði. „Nú sem áður held ég að það sé ráð fyrir útgerðir landsins að sigla flotanum sínum í Breiðafjörð og njóta þeirrar góðu þjónustu sem Snæfellsnesið hefur upp á að bjóða,“ segir Aron Baldursson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir