Félagar í Björgunarsveitinni Berserkjum voru kallaðir til þegar bátur losnaði frá bryggju í Stykkishólmshöfn í morgun. Ljósm. sá.

Næg verkefni björgunarsveita í gær og nótt

Björgunarsveitin Berserkir var kölluð til þegar smábátur losnaði frá bryggju í Stykkishólmshöfn í morgun. Landfestar bátsins slitnuðu um hálf sjö leytið og stóð útkallið yfir í meira en klukkustund. Vonskuveður var í Hólminum þegar óhappið varð. „Það var leiðinda vestan þræsingur, en útkallið gekk vel. Auðvitað tekur svona lagað tíma en þetta gekk bara fínt og ekkert tjón hlaust af,“ segir Einar Þór Strand, formaður Berserkja, í samtali við Skessuhorn.

 

Ófærð á Nesinu

Einar er jafnframt formaður svæðisstjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæði fimm. Hann segir björgunarsveitir á Vesturlandi hafa tekist á við ýmis verkefni frá því veður tók að versna í gærkvöldi. „Núna upp úr klukkan tíu fóru Berserkir að athuga með tré sem hafði losnað frá rótum í Stykkishólmi og ég veit að aðrar sveitir hafa haft nóg að gera líka í hinum og þessum verkefnum. Aðstoða þurfti ökumenn sem lentu í vandræðum í Búlandshöfðanum í nótt og þá lenti ökumaður í vandræðum á Skógarströnd. Álftarfjörðurinn er alveg lokaður og fóru Dalamenn í það verkefni og síðan á Laxárdalsheiðina líka,“ segir hann.

Það voru björgunarsveitarmenn í Lífsbjörgu í Snæfellsbæ og Klakki í Grundarfirði sem aðstoðuðu vegfarendur í Búlandshöfða. Þurfti að skilja einhverja bíla eftir og koma fólkinu til síns heima, að því er fram kemur á Facebook-síðu Lífsbjargar. Stórhríð var á svæðinu og vegurinn ófær.

Félagar í Björgunarsveitinni Ósk í Dölum máttu berjast lengi við veðrið á leið sinni í Álftarfjörðinn, en þeir fóru á vettvang þar sem ófært var úr Stykkishólmi. Barst þeim útkallið rétt fyrir klukkan 1:00 í nótt og aðgerðinni lauk ekki fyrr en upp úr kl. 5:00 í morgun. „Sex menn fóru á tveimur bílum og sóttist ferðin afar hægt í þungu færi. Þegar á staðinn var komið var bíllinn spilaður upp á veg og fólkið tekið í bíl björgunarsveitarinnar og farið með það í Búðardal,“ segir á Facebook-síðu Óskar.

„Það snjóaði fullt í gær og síðan fór að blása og þá varð ófært eins og skot hérna á Snæfellsnesinu,“ segir Einar, en nú kl. 11:00 eru nánast allar leiðir á Snæfellsnesi ófærar. Þungfært er frá Heydalsvegi að Vegamótum í suðri og sjókoma frá Heydalsvegi og austur í Dali á norðanverðu Nesinu. Hálka er milli Ólafsvíkur og Hellissands. Aðrar leiðir á Snæfellsnesi eru ófærar.

 

Kallaðir á Langjökul en snúið við

Félagar í Björgunarfélagi Akraness og Björgunarsveitinni Oki í Borgarfirði voru sendir af stað á Langjökul í nótt, í leit að ferðafólki sem lenti í hrakningum í vélsleðaferð á jöklinum í gær. Þegar séð var að hægt væri að komast að fólkinu hinum megin frá var þeim þó snúið við.

Snemma í morgun fóru síðan félagar í Lífsbjörgu í útkall vegna veikinda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Tveir björgunarsveitarmenn fóru ásamt tveimur sjúkraflutningamönnum á Ford Excursion bíl björgunarsveitarinnar suður fyrir jökul. Hríðarbylur var og vegurinn illfær. „Vel gekk að sinna sjúklingi og flytja undir læknishendur,“ segir á Facebook-síðu Lífsbjargar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir