Á þessu grafi má sjá starfaskiptinu ríkisins eftir landhlutum. Þrátt fyrir að á Vesturlandi búi 4,62% íbúa landsins eru ríkisstörf þar einungis 3% af heildinni.

Höfuðborgarsvæðið hefur sogað til sín störf opinber störf á kostnað landsbyggðarinnar

Hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi er kominn út nýr Hagvísir sem fjallar um ríkisstörf á Vesturlandi, staðsetningu ríkisstarfa vítt og breitt um landið og fjallað um hlutfallslegan fjölda á Vesturlandi og í einstökum sveitarfélögum innan landshlutans. Höfundur skýrslunnar er Vífill Karlsson hagfræðingur. Fram kemur að hvergi er eins lítið af ríkisstörfum og á Vesturlandi þegar tekið hefur verið tillit til fjölda íbúa og borið saman við önnur landssvæði. Suðurland kemur þar næst á eftir með næstlægsta hlutfallið. Flest eru ríkisstörfin á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kemur fram að ef störfum opinberra stofnana er bætt við skilgreind ríkisstörf almennt er Vesturland og Suðurland nánast í jafn slæmri stöðu þar sem minnst er af ríkisstörfum þar í samanburði við önnur landsvæði. Þegar breyting ríkisstarfa var skoðuð á tímabilinu 2013 til 2018 kemur í ljós að hvergi fækkaði eins mikið og á Vesturlandi, eða um 5%, en fjölgunin var 28% þar sem hún var mest. Fjölgun ríkisstarfa á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili, upp á 1.347 einstaklinga, hefði farið mjög langt með að leiðrétta ríkisstarfahalla þeirra landshluta sem bjuggu við hann. Hallinn taldi 1.390 störf.

„Þegar Vesturland var brotið upp eftir sveitarfélögum kom í ljós að engin ríkisstörf voru í Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppi. Af þeim sveitarfélögum sem einhver ríkisstörf voru var hallinn mestur í Hvalfjarðarsveit, þá í Snæfellsbæ og svo á Akranesi. Þegar breyting ríkisstarfa var skoðuð eftir sveitarfélögum á Vesturlandi árin 2013 til 2018 kom í ljós að hvergi fækkaði ríkisstarfsmönnum eins mikið og í Stykkishólmi, um 24,3% og í Borgarbyggð um 17,9%. Þeim hafði hins vegar fjölgað í fimm sveitarfélögum af tíu en hlutfallslega miklu minna en í þeim sveitarfélögum þar sem fækkun ríkisstarfsmanna varð.“

Vífill segir í skýrslunni að forsendur vaxtar á landsbyggðinni hafi breyst mikið. Landsbyggðin byggði lengi vel á landbúnaði og sjávarútvegi. Hlutur landbúnaðar í heildarfjölda starfa landsins hefur farið úr um 80% árið 1870 í um 2% árið 2015. Í fiskveiðum var hlutdeildin mest um 22% árið 1910 en var komin í um 2% árið 2015. Ferðaþjónustan, sem nýtir landið og miðin eins og hinar tvær atvinnugreinarnar, var farin að nálgast það að nýta um 10% alls vinnuaflsins árið 2015. Vífill bendir á að árið 1870 voru opinberir starfsmenn 1% af heildarvinnuafli í landinu en voru komnir í 30% árið 2018. Samkvæmt bráðabirgðaskoðun á tölum Hagstofu Íslands voru um 72% opinberra starfsmanna konur. Útgjöld ríkissjóðs hafa farið úr að vera 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 1901 í um 30% árið 2017. Þegar hið opinbera er allt tekið saman þá fóru útgjöldin úr um 20% af VLF árið 1945 í 43% 2017.

Hagvísinn má í heild sinni lesa á vef SSV.

Líkar þetta

Fleiri fréttir