Konurnar átta sem mynda Flæði. Í aftari röð f.v: Sesselja Jónsdóttir, Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir, Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Þorbjörg Kristinsdóttir og Sigríður Ásgeirsdóttir. Fremri röð f.v: Svanheiður Ingimundardóttir, Rósa Traustadóttir og Guðrún Steinþórsdóttir. Ljósm. Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir.

Flæði er samsýning kvenna með tengingu við Borgarfjörð

Laugardaginn 11. janúar næstkomandi verður opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar fyrsta samsýning hópsins Flæðis. Í honum eru átta konur sem hittast reglulega og mála saman. Allar hafa þær bakgrunn úr Myndlistarskóla Kópavogs hjá Derek Mundell. Einnig hafa þær sótt námskeið erlendis jafnt sem innanlands hjá kennurum eins og Keith Hornblower, Ann Larsson Dahlin og Bridget Woods. Konurnar í Flæði eru: Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Rósa Traustadóttir, Sesselja Jónsdóttir, Sigríður Ásgeirsdóttir, Svanheiður Ingimundardóttir, Þorbjörg Kristinsdóttir og Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir. Meirihluti hópsins hefur mikla tengingu við Borgarfjörðinn, ein býr þar og margar eiga sumarhús á svæðinu sem oft er uppspretta listrænna myndefna sem sést í mörgum verkum á sýningunni.

„Hópurinn hefur heillast af vatnslitum og töfrum þeirra þegar litur og vatn flæða saman. Vatnslitir eru krefjandi miðill sem erfitt er að stjórna en glíman við þá leiðir mann að endalausum möguleikum. Efni sýningarinnar er eins og heiti hennar gefur til kynna, flæði vatns, lita og myndefnis,“ segir í tilkynningu.

Eftir opnunardaginn er sýningin opin alla virka daga frá klukkan 13 til 18 og um helgar samkvæmt samkomulagi sem þá verður auglýst sérstaklega. Hún stendur til 18. febrúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir