Emil Freyr Emilsson skipstjóri á Lilju SH var brosmildur við löndun í Rifi á mánudaginn eftir fyrsta róður ársins. Aflinn var fimm tonn. Ljósm. af.

Fiskverð hátt þegar brælur hamla sjósókn

„Brælur og eintómar brælur,“ segir Sigurður Reynir Gunnarsson hafnarvörður í Rifi einkenna veiðarnar undanfarna daga og býst við að bræla verði út vikuna miðað við afleita veðurspá.

Litlu línubátarnir komust á mánudaginn í sinn fyrsta róður á nýju ári og var afli þeirra þokkalegur. Sama má segja um dragnótarbátana, en Egill SH landaði 16 tonnum á mánudaginn, mest skarkola, eða sjö tonnum. Verð á skarkola hefur aldrei verið hærra en núna og fór kílóið á 406 krónur á fiskmörkuðum. Sigurður Reynir hafnarvörður segir að það hafi verið mjög gott verð á öllum fiski á mánudaginn og var meðalverð á óslægðum þorski 545 krónur á kílóið, ýsan fór á 422 krónur og karfinn á 390 krónur. „Vegna ótíðar er mikill skortur á fiski og í dag eru aðeins tveir bátar á sjó,“ sagði Sigurður síðdegis á mánudaginn þegar fréttaritari Skessuhorns kom við á kajanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir