Fullrúum björgunarsveita á Vesturlandi var afhent blóm og viðurkenningarskjal í matarboði í Landnámssetrinu í Borgarnesi síðastliðið föstudagskvöld. Ljósm. Skessuhorn/ Sumarliði Ásgeirsson.

Björgunarsveitarfólk er Vestlendingar ársins 2019

Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands, hefur staðið fyrir vali á Vestlendingi ársins undanfarna tvo áratugi. Sem fyrr var auglýst eftir tilnefningum frá almenningi sem ritstjórn vann úr. Niðurstaðan var afgerandi. Vestlendingar ársins 2019 eru björgunarsveitarfólk á Vesturlandi. Það hefur nú sem fyrr sýnt hversu mikilvægt starf þess er fyrir samfélagið allt, íbúa jafnt sem gesti. Hinn sanni björgunarsveitarmaður er ávallt reiðubúinn til aðstoðar og leitar, að nóttu sem degi, leggur á sig ómældan fjölda vinnustunda við æfingar, fjáraflanir, leit og björgun á sjó og landi. Síðastliðið föstudagskvöld var fulltrúum allra níu björgunarsveitanna á Vesturlandi fært, við athöfn í Landnámssetrinu í Borgarnesi, viðurkenningarskjal og blóm frá Skessuhorni og íbúum með kæru þakklæti fyrir störf þeirra.

Samkvæmt tölfræði sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur utan um eru á fimmta hundrað virkir björgunarsveitarmenn á Vesturlandi. 469 björgunarsveitarmenn, af svæði 4 og 5, mættu í samtals 5.709 útköll frá 1. janúar 2014 til loka árs 2019. Það gerir að meðaltali 12,2 útköll á hvern einstakling. Fimm hafa mætt í yfir hundrað útköll á þessu sex ára tímabili. Það eru þeir Einar Þór Strand í Stykkishólmi, 169 sinnum, Bragi Jónsson, áður búsettur á Reykhólum, 121 sinni, Ægir Þór Þórsson í Snæfellsbæ, 111 sinnum, Arnar Grétarsson í Borgarfirði, 110 sinnum og Björn Guðmundsson á Akranesi, 108 sinnum.

Kynnum starf allra björgunarsveitanna

Í Skessuhorni sem kom út í dag tökum við hús hjá öllum björgunarsveitum á Vesturlandi, ræðum við formenn þeirra og heyrum um áherslur og hvað er efst á baugi í starfi sveitanna. Í viðtali við formenn kemur fram að framan af árinu 2019 var fremur rólegt en það átti eftir að breytast. Undir lok árs fór stór hópur af Vesturlandi til dæmis til leitar- og björgunarstarfa á Norðurlandi í kjölfar óveðursins sem þar gekk yfir. Milli jóla og nýjárs hófst svo leit að manni sem saknað er í Hnappadal. Þess má geta að fjórir af þeim níu sem tóku við verðlaunum fyrir hönd sinna björgunarsveita á föstudagskvöldið komu til athafnarinnar beint úr leit í fjallendi Hnappadals.

Meðfylgjandi mynd:

Meðfylgjandi mynd sýnir fulltrúa björgunarsveitanna á Vesturlandi. Frá vinstri talið: Kristján Ingi Arnarsson frá Björgunarsveitinni Ósk í Búðardal, Jóhanna María Ríkharðsdóttir frá Björgunarsveitinni Berserkjum í Stykkishólmi, Davíð Ólafsson frá Björgunarsveitinni Heiðari í Borgarfirði, Elín Matthildur Kristinsdóttir, en hún tók við verðlaunum f.h. Björgunarsveitarinnar Klakks í Grundarfirði, Jóhannes Berg frá Björgunarsveitinni Oki í Borgarfirði, Kristín H Kristjánsdóttir frá Björgunarsveitinni Elliða á sunnanverðu Snæfellsnesi, Helgi Már Bjarnason frá Björgunarsveitinni Lífsbjörgu í Snæfellsbæ, Þórður Guðnason frá Björgunarfélagi Akraness og Einar Örn Einarsson frá Björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi.

Vestlendingum ársins er óskað til hamingju með viðurkenninguna!

Sjá nánar ítarlega frásögn af starfi björgunarsveita á Vesturlandi í Skessuhorni sem kom út í dag.

Björgunarsveitarfólk á Snæfellsnesi mokar lausan snjóruðningsbíl. Ljósm. úr safni/sá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir