Grái herinn hyggst höfða dómsmál gegn ríkinu

Grái herinn, baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sem berst fyrir mannsæmandi kjörum og virðingu allra, hefur ákveðið að fara í mál á hendur ríkisvaldinu vegna skerðinga á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun. Helgi Pétursson talsmaður félagins skrifar um málið og segir að það hafi verið í undirbúningi mánuðum saman en nú sjái fyrir endan á því.

„Við búumst við að hægt verði að dómtaka málið á næstu vikum,“ segir Helgi. Nokkur verkalýðsfélög hafa þegar lofað fjárframlögum vegna kostnaðar við málssóknina, en betur má ef duga skal. „Við skulum búa okkur undir að þetta verður ekki auðvelt. Við erum að eiga við öfl sem segja eitt en gera svo allt annað og finnst það allt í lagi. Samningar og jafnvel niðurstaða dómstóla virðist ekki skipta neinu. En fyrst og fremst er það landlægt virðingarleysi gagnvart eldra fólki og kjörum þess, svo ekki sé minnst á þá langelstu, sem liggja á göngum og í skúmaskotum, sem fær að viðgangast. Að breyta þessu viðhorfi gagnvart eldra fólki er stóra verkefni okkar allra,“ skrifar Helgi í tilkynningu sem talsmaður Gráa hersins. Gert er ráð fyrir að lögfræðingar Gráa hersins leggi fram prófmál fyrir hönd eins einstaklings, sem síðan verður yfirfært á aðra eldri borgara vinnist sigur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir